136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu af því að hún er komin inn í nóttina eins og iðulega þegar rætt er um starfskjör þingmanna. Það virðist vera einkenni á þeim að þau ræðist að næturlagi.

Ég ætlaði að grípa upp þetta atriði sem rætt var rétt áðan, um niðurlag 3. gr., um að menn sem falla undir lögin 2003 megi ekki starfa á vegum ríkisstofnana og félaga. Hvað gerist ef einhver er í þeirri stöðu og svo eru allt í einu sett lög á Alþingi um að eignarréttur hans sé skertur? Hvað segir 72. gr. stjórnarskrárinnar og hvað segja þeir menn sem stöðugt eru að tala og mala um stjórnarskrárbrot? Ég er ansi hræddur um að þetta sé hreinlega stjórnarskrárbrot og ég skora á hv. nefnd að skoða það mjög nákvæmlega þó að ég sé ekkert hrifinn af þessu fyrirkomulagi. En við þurfum samt að gæta þess að vera innan ramma stjórnarskrárinnar sem við höfum svarið eið að.

Ég ætla rétt aðeins að koma inn á alls konar forréttindalífeyri. Einu sinni var í tísku hjá ríkisbönkunum mjög góður lífeyrir fyrir bankaforstjóra eða bankastjórana, mjög hár, réttindaávinnsla var 6% á ári o.s.frv. og þessir menn njóta þess enn þann dag í dag með ríkisábyrgð. Við erum með alls konar réttindi í B-deildinni sem er nú þekkt. Skuldbindingin vegna B-deildarinnar, herra forseti, er 372 milljarðar óuppgert, áfallin skuldbinding samkvæmt reikningum lífeyrissjóðsins. Bíðum við, er þetta ekki tala sem minnir á eitthvað? Er þetta ekki nokkurn veginn framlagið í nýju bankana úr ríkissjóði? Eru þetta ekki nokkurn veginn heildarskuldbindingarnar við Icesave eða eitthvað svoleiðis? Þetta er ógreitt vegna ofurlífeyrisréttinda í B-deild. Þar eru ráðuneytisstjórarnir, þar eru fyrrverandi þingmenn o.s.frv. og bæjarstjórar og fleiri eins og þekkt er. Þessi skuldbinding er svakaleg. Hún er þess eðlis að það má segja að opinberir starfsmenn í B-deildinni hafi hirt allt sem selt hefur verið af eigum ríkisins og miklu meira en það, Símann, bankana o.s.frv. Samt er ríkið búið að borga 137 milljarða inn í þetta dæmi, þ.e. þetta eru um 500 milljarðar samtals sem iðgjaldið dugði ekki til.

Ég ætlaði líka að tala um forréttindalífeyri víða um heim. Það er uppi umræða í Bretlandi núna um forréttindalífeyri. Það er nefnilega að koma í ljós að sumar stéttir hafa tryggt sér mjög góðan lífeyrisrétt, sérstaklega í opinbera geiranum, og það er komin ákveðinn uppreisn gegn þessu kerfi hjá þeim sem eru að borga. Þess vegna er það áhugavert sem verið er að gera í 3. gr., að skerða þarna réttindi, er þá ekki komið fordæmi fyrir því að skerða réttindin í B-deildinni líka fyrst hægt er að skauta svona yfir eignarréttinn á grundvelli neyðarlaga o.s.frv? Það er spurning.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra í lokin. Ég flutti breytingartillögu — ef hæstv. fjármálaráðherra gæti nú hlýtt á mál mitt, við erum að ræða hans mál. Ég bíð eftir því að hæstv. fjármálaráðherra geti hlýtt á mál mitt af því við erum að ræða hans mál í þinginu. — Ég flutti breytingartillögu í vetur við frumvarpið þá í þá veru að þingmenn mættu góðfúslega velja sér lífeyrissjóð á almennum markaði til þess að upplifa sömu tilfinningu og umbjóðendur þeirra flestir, sjómenn, verkamenn, verslunarmenn o.s.frv., að sjá skertan lífeyri, gegn hækkun launa. Og nú ætla ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki komi til greina — auðvitað á ég ekki að spyrja hann því að það er Alþingi sem fjallar um þetta — og líka framsóknarmenn sem styðja góð mál, hvort menn séu þá ekki sammála því að heimila þeim þingmönnum sem það vilja að hoppa út úr þessu forréttindakerfi og inn í eitthvað sem umbjóðendur þeirra þurfa að sæta. Hvort menn mundu ekki styðja svona breytingartillögu sem felst í því að þingmenn geti valið lífeyrissjóð að eigin vali úti í þjóðfélaginu og fái launahækkun sem því nemur miðað við það að vera í forréttindakerfi opinberra starfsmanna.