136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var nú eiginlega ekki að tala um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Ég var ekkert að segja að þau væru of góð eða slæm eða neitt. Ég var bara að tala um lífeyrisréttindi þingmanna. Og það er spurningin um það, fyrst menn eru að tala um að hafa lífeyrisréttindi eins og almennt gerist, af hverju í ósköpunum skyldi ég þá ekki mega velja Lífeyrissjóð verslunarmanna þar sem ég á mest af mínum réttindum? Ég hef nefnilega ekki verið á þingi í 30 ár eða 25 ár. Ég á helling af réttindum annars staðar og þar eru mínir kjósendur eins og flestra þingmanna, 80% kjósenda eru í almennu lífeyrissjóðunum.

Það sem ég er að fara fram á er að ég fái að velja mér lífeyrissjóð eins og aðrir og fái hækkun á launum í staðinn og sæti þá hugsanlega þeirri skerðingu sem menn þurfa að mæta, kjósendur mínir. Aðrir þingmenn geta þá bara verið í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og með gulltryggð réttindi, forréttindaréttindi, og ég fæ þá launahækkun í staðinn. Það kemur þá í ljós hvers virði þessi forréttindi eru. Ég er bara að fara fram á þetta val. Ég ætla ekkert að breyta lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, alls ekki. Ég veit að þetta er sögulegt og að menn fengu á vissu árabili lægri laun af því að þeir voru með góðan lífeyrisrétt. Það er alveg hárrétt og það er mjög löng saga á bak við allt lífeyriskerfið. En vandinn er sá að þingmenn eru ekki í takt við kjósendur sína. Þetta er ekki gagnsætt. Það er krafa þjóðfélagsins að menn sýni gagnsæi, sýni hvers virði réttindin eru hjá þingmönnum og hækki bara launin sem því nemur. Þá kemur það í ljós.