136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er bara ekki rétt. Þingmenn eru kjörnir á þing af ákveðnum hópum kjósenda, þeir eru ekki opinberir starfsmenn. Þingmenn eru ekki starfsmenn framkvæmdarvaldsins. Ég harðneita því. (Fjmrh.: Það var enginn að segja það.) Nei. Og þess vegna er ekkert eðlilegt að þeir borgi inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, starfsmanna framkvæmdarvaldsins. Það er ekki eðlilegt, það er ekkert eðlilegra en að menn borgi bara í almenna lífeyrissjóði, Lífeyrissjóð verslunarmanna. Það er ekkert eðlilegra en það.

Það sem ég er að fara fram á er að menn samþykki þá breytingartillögu sem ég flutti fyrir jól, sem var kolfelld. Tveir greiddu atkvæði með henni, 45 á móti og átta sátu hjá. Atkvæðataflan er sjaldan rauðari. Ég er að fara fram á það, ekki fyrir mig prívat og persónulega þó að ég væri alveg til í að fallast á það, að þingmenn hafi heimild til að velja sér lífeyrissjóð eins og umbjóðendur þeirra, eins og kjósendur þeirra, til þess að þeir deili kjörum með kjósendum sínum. Kjósendur hv. þingmanns eru sjómenn og bændur, verkamenn og skrifstofumenn á Húsavík o.s.frv. (MÁ: Líka opinberir starfsmenn.) Já, líka þau 20%, þeir eru væntanlega færri úti á landi. Ætli það séu ekki svona 10% sem eru opinberir starfsmenn. Hinir eru allir í lífeyrissjóðum sem þeir eru skyldaðir til að borga í með lögum og þurfa núna hugsanlega að skerða réttindin. Þeir eru ekkert spurðir um hvort þeir vilji vera í þessum lífeyrissjóðum, þeir skulu borga í ákveðinn lífeyrissjóð eftir starfi.

Þetta er spurningin um þingmenn af því að þeir eru ekki starfsmenn ríkisins, mér finnst að þeir eigi að borga í almenna lífeyrissjóði, eigi a.m.k. að geta valið um það og fengið launahækkun. Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að skoða það alla vega hvort þetta væri ekki heimilt.