136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gerir eins og venjulega, talar niður til fólks og segir að við séum í málfundaæfingum og ekki sé rætt um frumvarpið í heild sinni o.s.frv. Hann hefur náttúrlega afskaplega mikið vit á þessu og veit hvernig menn eiga að vinna.

Hann skrifar söguna og segir að Samfylkingin hafi neyðst til að gera þetta og hitt og hafi gert mistök 2003. Það var reyndar gert samkomulag skilst mér, handsalað, en svo hlupu menn eins og kjúklingar út og suður. Einn var ekki kjúklingur og stóð eftir, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson. Svo var gert frumvarp í vetur og aumingja Samfylkingin, þessi stóri flokkur, beygði sig aftur undir Sjálfstæðisflokkinn. Ingibjörg Sólrún greiddi atkvæði með frumvarpinu sem og allir. (MÁ: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.) Einn þingmaður, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Nokkrir sátu hjá, aðallega Vinstri grænir, en Samfylkingin var beygð í duftið, aumingjarnir. Þetta er nú vesallegt. Svona er sagan skrifuð. Þeir gátu ekkert að þessu gert, algerlega meðvitundarlausir.

Árið 2003 var ekki verið að bæta kjör hins almenna þingmanns, það veit hv. þingmaður, (Gripið fram í.) kjörin voru ekki bætt. Ekki var verið að bæta kjör almennra þingmanna. Það voru flokksformennirnir og ráðherrarnir sem bættu kjör sín. Lífeyrisfrumvarpið frá því í vetur var heldur ekki til að bæta kjör þingmanna, það er heldur ekki rétt söguskýring. Ég held að hv. þingmaður ætti að skrifa söguna pínulítið öðruvísi og dálítið hlutlausari.