136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:45]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég geri mér ljóst að hv. þingmaður hefur skilið orð mín þannig að ég væri að setja mig á háan hest gagnvart þeim umræðum sem farið hafa fram um frumvarpið. Það var ekki ætlun mín og ég biðst afsökunar á því úr því að það hefur verið svo. Það sem ég átti við var að ræður þingmannanna tveggja sem ég heyrði á fjölluðu fyrst og fremst um tæknilegar hliðar frumvarpsins, vil ég segja, en ekki um það samhengi sem það var sett í. Ég vakti athygli á því að það væri ákaflega eðlilegt miðað við þá sögu sem ég rakti af málinu og hefur ekki verið mótmælt hér.

Um það hvort þingmenn hafi haft hag af frumvarpinu 2003 hélt ég að ég hefði sagt það bæði í andsvari við hv. þm. Bjarna Benediktsson og síðan í ræðu minni að ekki var um það að ræða en það hefur sennilega ekki verið nógu skýrt. Það voru fyrst og fremst ráðherrarnir sem höfðu hag af þessu frumvarpi og þessum lögum því að eins og Pétur Blöndal veit betur en ég var fyrst og fremst verið að leiðrétta ákveðinn réttindamun gagnvart þingmönnunum sem hafði komið út úr hinum fyrri lögum. Ég hef aldrei gefið annað í skyn.

Hins vegar þykir mér miklu eðlilegra — eins og kom fram áðan þykir hv. þm. Bjarna Benediktssyni það ekki — að þingmenn búi einfaldlega við svipuð kjör og almenningur í landinu. Ég get rætt það lengi dags og nætur við Pétur Blöndal við hvað ætti þá að miða en nærtækasta og eðlilegasta viðmiðunin eru auðvitað sjóðir opinberra starfsmanna.