136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[22:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en þvert á móti þakka fyrir hana. Það er ekki hægt að saka hv. þingmenn um að sýna þessu máli ekki áhuga því það hefur verið rætt hér drjúgt inn í kvöldið. Enda er þetta auðvitað stórt og sögufrægt mál að segja má en vonandi sér nú fyrir endann á því um sinn að Alþingi þurfi að eyða miklum tíma í umræður um þessa hluti. Ég bind vonir við að nú komist á sú skipan mála sem sæmilegur friður getur orðið um í samfélaginu og sáttum við þjóðina.

Það er aðeins eitt atriði sem ég vil gera að umtalsefni af því að það hefur borið nokkuð á góma, þar á meðal hefur hv. þm. Bjarni Benediktsson rætt það nokkuð ítarlega. Það er sú staðreynd að í þessu frumvarpi eins og hinu fyrra sem sú ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi hér fyrir jólin flutti, er gert ráð fyrir því að tekið sé af það fyrirkomulag sem í raun og veru er gamalt að stofni til en fór ekki að reyna á að neinu ráði fyrr en eftir breytinguna 2003, þ.e. að þingmenn, fyrrverandi þingmenn eða ráðherrar geti jafnframt verið í vel launuðum opinberum störfum og tekið eftirlaun.

Þetta ákvæði sætti auðvitað mikilli gagnrýni þegar það rann upp fyrir mönnum að með þeim breytingum sem urðu 2003 og flýttu í allmiklum mæli fyrir því að menn gætu farið á eftirlaun á yngri en áður var en jafnframt farið í vel launaðar opinberar stöður. Menn fengu því greitt úr ríkissjóði eins og átti við eftir 2003 þegar hægt var að reikna út lífeyrisskuldbindingar ríkisins að þessu leyti sérstaklega og þær greiddust beint úr ríkissjóði, þeir fengu rífleg eftirlaun, og þeir gátu jafnframt verið í vel launuðum störfum eins og sendiherrar, bankastjórar eða hvað það nú var. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að með þessu frumvarpi og þeirri skipan mála að alþingismenn og ráðherrar og síðan hæstaréttardómarar og aðrir slíkir hverfi inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og verði þar félagar í A-deild þá ganga þeir inn í þær almennu reglur sem þar gilda og eru almennar á vinnumarkaðnum, þ.e. að menn geta með tilteknum hætti þegar þeir hafa öðlast aldur til að hefja töku eftirlauna gert það, en jafnframt sinnt launuðum störfum.

En það sem hv. þingmaður ræddi lítið er að þá er tökukerfið með allt, allt öðrum hætti en átt hefur við á þessu tímabili, þ.e. frá 2003, eftirlaunagreiðslurnar skerðast að sjálfsögðu og þær skerðast til frambúðar. Kerfið frá 2003 er að því leyti sérstakt að í fyrsta lagi er nú um miklu ríflegri lífeyrisgreiðslur að ræða, menn hafa miklu ríkulegri réttindi í því kerfi og þeir geta hafið töku lífeyris fyrr, eða gátu, en aðrir áttu yfirleitt kost á. Þá var að vísu um nokkuð skertar útgreiðslur að ræða sem hækkuðu í þrepum og þegar á fullan lífeyristökualdur kom var rétturinn orðinn óskertur og hélst svo til æviloka.

Þarna er um gjörsamlega ósambærilega hluti að ræða. Um mikla sérreglu var að ræða í lögunum um eftirlaun forseta, hæstaréttardómara, alþingismanna og ráðherra sem eru í raun og veru ósambærileg við hinar almennu reglur um töku lífeyris samhliða launuðum störfum, bæði hjá opinberum starfsmönnum og á almenna vinnumarkaðnum. Það er eingöngu sá sérréttur sem er tekinn af með þessum lögum og síðan hverfur það fyrirkomulag smátt og smátt úr myndinni eftir því sem sá hópur sem tilheyrir hinum gamla tíma hverfur af vinnumarkaði og fer þá eingöngu á þau eftirlaun sem honum ber samkvæmt eldri ákvæðum. (PHB: Forréttindahópur.) (MÁ: Forréttindahópur, já.) Þessu kerfi er sem sagt lokað og sagan mun afgreiða það smátt og smátt út úr heiminum og eftir standa alþingismenn og ráðherrar og aðrir á grundvelli almennra reglna í þessum efnum eins og þær almennt eru á vinnumarkaði en í allt öðru samhengi en átt er við hér.

Talandi um forréttindi þá voru þarna nefnilega vissulega veruleg forréttindi á ferðinni sem voru hin miklu ríkulegri ákvæði sem áttu við um þennan hóp og mikið ósætti varð um eins og kunnugt er. Ég tel því að það sé enginn ágalli á þessu frumvarpi, nema síður sé, að svona er frá þessu gengið, það er verið að loka hinu gamla fyrirkomulagi og leggja það af. Það deyr út í fyllingu tímans og almennar reglur gilda að þessu leyti eins og öðru um hópinn sem hér á við.