136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[22:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans og þær skýringar sem hann hefur komið með á þessu máli. En mig langar til þess að koma tveimur athugasemdum.

Í fyrsta lagi fannst mér hæstv. fjármálaráðherra gera fullmikið úr þeim mun sem er á gildandi lögum í þessu efni og lögunum um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Staðreyndin er sú að samkvæmt gildandi lögum þurftu þingmenn að hafa verið með mjög langa þingsetu til þess að ávinna sér rétt til þess að hefja töku lífeyris áður en þeir urðu sextugir, til þess að sá réttur yrði virkur. Að hámarki gátu þeir áunnið sér rétt til að hefja töku lífeyris fimm árum fyrir sextugt, þ.e. 55 ára, en til þess að sá réttur yrði virkur þá þurftu þeir að hafa setið á þingi í 26 ár. Sama gilti fyrir ráðherrana, það var einungis þegar þeir höfðu verið í ráðherrastöðu í verulega langan tíma. Og ef frumvarpið átti að beinast sérstaklega að því að gera einfaldar breytingar á þessum ákvæðum laganna þá var það í sjálfu sér ekkert vandamál, til að mynda með því að afnema 3. tölulið 8. gr. laganna frá 2003.

En hitt er að mestu leyti algjörlega óskýrt hvers vegna áralöng regla um að forseti Íslands, sem er þjóðkjörinn, eigi ekki lengur — í tilefni af umræðunni um frumvarpið frá 2003 — að njóta réttar til töku lífeyris með þeim hætti sem gilt hefur heldur sé alveg sérstakt tilefni núna til þess að gera líka breytingar á hans stöðu.