136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[22:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Frumvarpið 2003 og sérstaklega sú regla sem birtist þegar frumvarpið kom og hafði þá verið sett inn í frumvarpið, síðbúið áður en því var dreift á Alþingi, þ.e. að forsætisráðherra væri togaður jafnhressilega upp í eftirlaunaávinnslu og raun bar vitni var einmitt rökstudd með þessu. Að það væri nauðsynlegt að jafna hann upp á við í átt að forseta Íslands. Það var þá sú hugsun að jafna menn upp á við í áttina að auknum sérréttindum eða auknum sérreglum í þessum efnum.

Auðvitað má segja sem svo að menn mundu kannski sýna því skilning að um þjóðhöfðingja giltu sérstakar reglur. Nú er það svo að samkvæmt gildandi stjórnarskrá getur enginn boðið sig fram til embættis forseta Íslands fyrr en hann er orðinn 35 ára, og algengast er að þeir sem gegna embætti forseta eru komnir yfir miðjan aldur þegar þeir eru kosnir, og sitji menn lengi í því embætti þá eru þeir komnir á þó nokkurn aldur þannig að á þetta reynir kannski ekki í þeim skilningi að líklegt sé að forseti láti af embætti svo ungur að árum að hann eigi langt eftir í venjulegan lífeyristökurétt og venjuleg aldursmörk í þeim efnum.

Eitt vil ég líka leggja áherslu á í þessum efnum. Þetta frumvarp dregur lagaskilin þannig að allir eiga að mínu mati að geta vel við unað. Það er að sjálfsögðu ekki hróflað við réttindunum, enda varin af stjórnarskrá, á yfirstandandi kjörtímabili forsetans og það er ekki hróflað við réttindunum hvað varðar þá hæstaréttardómara sem búið er að skipa inn í réttinn.

Alþingismenn sem bjóða sig fram til alþingiskosninga nú, verði þetta nú að lögum 1. apríl eins og gert er ráð fyrir, vita að hverju þeir ganga. Það mun líka gilda um forseta Íslands, hæstaréttardómara og aðra sem taka að sér embætti og eiga hér undir. Það finnst mér vera aðalatriðið. Þá vita menn að hverju þeir ganga í þessum efnum. Ég hef ekki trú á að því verði hreyft frá því horfi sem hér er lagt til verði það lögfest um langan aldur.

Og ég er alveg sannfærður um að við munum fá gott fólk til að bjóða sig fram til þings, til að gegna ráðherrastörfum (Forseti hringir.) eða til að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands þótt það deili hvað lífeyrisréttindaávinnslu (Forseti hringir.) varðar kjörum með almenningi í landinu.