136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[22:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt varðandi lagaskilin. Það er einn hópur sem þetta frumvarp fjallar um sem ég held að hafi ekkert sérstakt tilefni til þess að vera ánægður með lagaskilareglurnar sem er að finna í frumvarpinu. Það er sá hópur sem hefur áunnið sér réttindin samkvæmt lögunum frá 2003 eða þeim lögum sem giltu fyrir þann tíma eins og fjallað er um í frumvarpinu, vegna þess að sá hópur mun héðan í frá vera einn í þeirri stöðu að geta ekki neytt lífeyrisréttinda sinna og á sama tíma þegið laun í opinberu starfi eða á vegum stofnana og félaga sem ríkið á meiri hluta í.

Það er verið að setja alveg nýjar reglur um þessa hluti með þessu frumvarpi. Þeir sem eru opinberir starfsmenn geta tekið út lífeyrisréttindi sín og á sama tíma gegnt slíku starfi. Þeir sem munu þiggja réttindi sín á grundvelli laganna sem hér er verið að setja munu geta gert slíkt hið sama en ekki þeir sem hafa áunnið sér réttindi samkvæmt lögunum frá 2003 eða lögunum sem giltu þar á undan. Það er verið að setja algera sérreglu um þá.

Það er ekki einu sinni sett sú sérregla að miða við sextíu árin sem ég held að þingnefndin hljóti að skoða, þ.e. að draga markið við sextíu ára aldurinn og segja að svo miklu leyti sem eldri lög tryggðu mönnum rétt til þess taka út lífeyrisréttindi sín á sama tíma og þeir voru í opinberu starfi yngri en sextugir, þá sé sú regla felld niður en frá sextugu eigi það sama að gilda eftirleiðis og um opinbera starfsmenn almennt. Það hlýtur að koma til skoðunar í nefndinni.