136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:30]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í umræðum í gær um störf þingsins kallaði hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson eftir afstöðu Sjálfstæðisflokksins til aðildar að Evrópusambandinu. Þingmaðurinn og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar ítrekuðu afstöðu flokks síns um tafarlausa aðild að sambandinu og upptöku evru og boðuðu að það yrði stóra kosningamálið í vor.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr og hefur alltaf verið. Hún hefur legið fyrir þótt það sé afstaða sem fyrrverandi samstarfsflokki okkar í ríkisstjórn líkaði ekki. Við höfum ekki verið hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu og innan flokks okkar hefur farið fram ítarleg umræða um þessi mál, ekki síst að undanförnu. Ég á ekki von á öðru en að þau verði mikið rædd á komandi landsfundi okkar þar sem stefna flokks okkar er mörkuð. Verði henni breytt gerist það þar.

En það er ekki það sem ég vildi ræða hér. Mér leikur hugur á að vita hver stefna Vinstri grænna er í þessum málum. Hingað til hef ég talið flokkinn vera andsnúinn Evrópusambandsaðild eins og fram kom m.a. á heimasíðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar 27. janúar sl. En formaður Samfylkingarinnar sendi okkur sjálfstæðismönnum pillu í útvarpsþætti fyrr í vetur og taldi ríkisstjórnin samstarfinu sjálfhætt ef við skiptum ekki um stefnu í Evrópumálum. Það gengi ekki að hafa tvær stefnur í peningamálum í sömu ríkisstjórninni.

Nú virðist staðan hins vegar enn þá vera þannig ef eitthvað er að marka orð þingmanna Vinstri grænna nema þeir hafi skipt um stefnu. Þessir flokkar virðast ekki ganga í takt, hvorki í Evrópumálum né gjaldmiðilsmálum. Nú er mikið rætt um mögulegt framhald samstarf þessara tveggja flokka eftir kosningar fái þeir þingstyrk til og því er eðlilegt að kjósendur fái skýr svör varðandi þessa grundvallarkröfu Samfylkingarinnar sem var áréttuð í gær.

Því vil ég spyrja formann þingflokks Vinstri grænna, hv. þm. Jón Bjarnason, um afstöðu hans og flokks hans í Evrópumálum. Er Vinstri hreyfingin – grænt framboð búin að breyta um skoðun í takt við Samfylkinguna? Er Vinstri hreyfingin – grænt framboð (Forseti hringir.) orðin hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu?