136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:37]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Flokksþing Framsóknarflokksins í janúar markaði mikil tímamót. Hann var annar íslenskra stjórnmálaflokka til að taka upp þá afdráttarlausu stefnu að hann vildi sækja um aðild að Evrópusambandinu að uppfylltum vissum skilyrðum. Samfylkingin markaði sér þessa stefnu fyrir sjö árum síðan í almennri kosningu innan flokksins. Við viljum sem sagt tafarlausa aðildarumsókn. Það er það sem við viljum. (Gripið fram í: Með skilyrðum.) Já, að sjálfsögðu eru skilyrði fyrir því, samningsmarkmið og augljós skilyrði um yfirráð yfir auðlindum og margt annað.

Það sem mestu skiptir er að flokkarnir hafi áræði til þess, þrátt fyrir átakaótta sinn innan flokks, að koma fram með nýjar, skýrar og hreinar línur eftir landsfundi sína í mars þannig að kjósendur í apríl eða maí hafi afdráttarlausa kosti fyrir framan sig.

Næsta ríkisstjórn verður að hafa það á stefnuskrá sinni hverjar framtíðarúrlausnirnar eru í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Það voru stærstu mistök síðustu ríkisstjórnar að fresta framtíðarmarkmiðum í Evrópu- og gjaldmiðilsmálum. Það blasir við okkur öllum. Næsta ríkisstjórn, hver sem hún verður, má ekki gera sömu mistökin aftur. Flokkarnir hafa núna gott svigrúm til að endurnýja og skerpa á Evrópuáætlunum sínum eins og Framsóknarflokkurinn gerði með mjög merkilegum hætti núna í janúar. Samfylkingin afgreiddi þetta á sínum tíma. Núna bíða íslenskir kjósendur eftir því hvaða valkosti flokkarnir ætla að bjóða upp á í Evrópu- og gjaldmiðilsmálum af því að við vitum að forsendan fyrir því að við búum við afnám verðtryggingar, lága vexti og gjaldmiðilsstöðugleika er upptaka evru eftir aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það skiptir mestu máli. Það eru langstærstu hagsmunamál heimila og fyrirtækja á Íslandi og þess vegna spyrja menn: Hvað ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að gera í Evrópumálum í vor? (Gripið fram í.)