136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þessari umræðu. Ég er ósammála þeim sem segja að þetta sé ekki eitt af brýnustu hagsmunamálum okkar í dag. Evrópuumræðan er eitt af okkar brýnustu málum, og við afsölum okkur ekki því verkefni sem við í þessum sal eigum að hafa, sem er það að leita bestu mögulegu lausna fyrir íslenskt samfélag og þann vanda sem við er að etja. Það á að fara fram hér í þingsalnum, við eigum ekki að afsala okkur því til landsfunda flokkanna.

Hér erum við, virðulegi forseti, í bullandi gjaldeyriskreppu. Við erum ekki með verðmiða á íslensku krónunni. Við erum hér í bullandi verðbólgu og við erum í bullandi vandræðum, íslenskt samfélag. Það er skylda okkar að ræða lausnir á þeim vanda. Það vita það allir að Evrópusambandsaðild og upptaka evru er raunhæf lausn út úr þeim vanda sem við erum í. Í staðinn hafa menn ákveðið að fara í skógarferðir og ræða um hugsanlega upptöku norsku krónunnar — mér finnst það afar undarleg umræða, þar sem við eigum í mjög litlum viðskiptum við Noreg, um 4% af okkar útflutningi fara þangað, en helmingur af útflutningi okkar er til Evrópusambandsríkjanna. (GÞÞ: Hvar er fjármálaráðherra?) Þar er hagsmunum okkar best borgið.

Ég er ekki undrandi að menn hér inni séu órólegir í frammíköllum. Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki að gera upp við fortíð sína, fortíð sem byggist á vanrækslu í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, sá vandi hefur varað miklu lengur en sú bankakreppa sem við erum í núna. Við höfum verið í gjaldeyriskreppu miklu lengur og það vandamál (Forseti hringir.) hefur Sjálfstæðisflokkurinn vanrækt. Það er þess vegna sem menn eru órólegir hér. Þeir þora ekki að gera upp fortíðina og þann vanda sem þeir hafa skilið okkur (Forseti hringir.) eftir í.