136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið mjög skemmtileg umræða. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni, þingflokksformanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem tók af allan vafa og lýsti stefnu flokks síns mjög skýrt og klárt og var með skoðanakannanir máli sínu til stuðnings, lýsti vilja þjóðarinnar í þeim efnum. Svo ég hafi nú orðrétt eftir honum þá hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð svo sannarlega ekki skipt um skoðun í Evrópumálum.

Eins og hér hefur komið fram er einnig mjög athyglisvert að sjá túlkanir þingmanna Samfylkingarinnar. Hv. þm. Mörður Árnason gerðist allt í einu talsmaður Vinstri grænna og fór að túlka þetta sem svo að um væri að ræða stórt framfaraskref. Hv. þm. Árni Páll Árnason gerði slíkt hið sama og reyndi eina ferðina enn að klína þessu öllu á okkur sjálfstæðismenn.

Ég segi það enn og aftur að stefna Sjálfstæðisflokksins, bæði fyrir og eftir ríkisstjórn með Samfylkingunni, hefur verið algjörlega sú sama og legið hefur fyrir. Ef hún á að breytast þá gerist það á landsfundi Sjálfstæðisflokksins ekki annars staðar, þar verður umræðan tekin.

En það hríslast niður eftir bakinu á mér hrollur og ég vorkenni þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að vera komnir í þá stöðu sem við sjálfstæðismenn vorum í í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Það er ekki nóg að Samfylkingin þurfi að predika stefnu sína — allt í lagi, það eigum við að gera í stjórnmálunum — en ef þú ætlar að breyta stefnu annars flokks þá skaltu ganga í þann flokk og tala fyrir þeirri stefnu. Mér sýnist að aumingja Vinstri grænir hafi verið leiddir inn í ríkisstjórn og gabbaðir, nú á að fara að plata þá inn í Evrópusambandið þvert gegn vilja þeirra. Nei, svo sannarlega ekki, segir þingflokksformaður Vinstri grænna. Við höfum ekki breytt um stefnu í Evrópusambandsmálum. Þá hlýtur þessu samstarfi að vera sjálfhætt. (Forseti hringir.) Þá hlýtur það að liggja fyrir, þá hlýtur kjósendum að vera ljóst, að ekki verður gengið í Evrópusambandið ef þessir (Forseti hringir.) flokkar ná saman eftir kosningar.