136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er kannski fyrst um þessi mál að segja að það er mikil ástæða til þess að fagna þeim forustuskiptum sem orðið hafa í Bandaríkjunum nýverið með tilkomu nýs Bandaríkjaforseta, en sá sem sat þar í átta ár á undan var kannski einhver helsti þrándur í götu þess að okkur tækist á hinum alþjóðlega vettvangi að ná þeim árangri sem verður að nást í baráttunni við loftslagsvandann. Það eru miklar vonir sem hafa vaknað um heim allan með Barack Obama og áherslum hans í þessu efni.

Það er hins vegar dálítið erfitt að tala sig upp í hita yfir því gamla þrætuepli sem hv. þm. Illugi Gunnarsson tekur hér upp og varðar íslenska ákvæðið og undanþágur fyrir stóriðju í framtíðinni á Íslandi. Það er einfaldlega þannig að hér er skollin á heimskreppa og við höfum þegar tryggt heimildir fyrir þau verkefni sem hér eru í gangi og sett hafa verið af stað. Líkur eru á því að í fyrirsjáanlegri framtíð fari hér af stað stór verkefni sem kalli á heimildir, satt að segja því miður fremur takmarkaðar, og úr því öllu hægt að leysa, hygg ég, innan skynsamlegra marka jafnvel þó að af því yrði. Það er þess vegna í einhverjum skilningi, held ég, deila um keisarans skegg að slást um íslenska ákvæðið í þessari umræðu.

Það er þó rétt sem hv. þingmaður vekur athygli á að með því að gerast aðilar að viðskiptakerfi Evrópusambandsins, sem ég veit að hv. þingmaður og flokksfélagar hans eru auðvitað sérstakir áhugamenn um, gæfust — og einkanlega þó með fullri aðild að Evrópusambandinu — sannarlega færi á sveigjanlegri þáttum í loftslagsmálunum en við búum við við núverandi aðstæður. Ég held hins vegar að ótvírætt eigi að vera að við leggjum höfuðáherslu (Forseti hringir.) á það að axla okkar hlut í þessum stóru verkefnum því að við megum ekki láta skammtímasjónarmið (Forseti hringir.) ráða í þessu. Nóg er að efnahagskerfi okkar hafi hrunið þó að náttúrukerfi okkar hrynji ekki vegna skammtímasjónarmiða.