136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

fjárhagsvandi heimila.

297. mál
[14:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helga Sigrún Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í stefnuræðu nýs hæstv. forsætisráðherra kom fram sú fyrirætlun að grípa ætti til markvissra aðgerða til að bregðast við fjárhagsvanda heimilanna í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila. Ein þeirra aðgerða er að setja á fót svokallaða velferðarvakt margra aðila sem hafi það hlutverk að fylgjast með afleiðingum bankahrunsins og gera tillögur um aðgerðir. Kom fram í viðtölum við ráðherrann að um væri að ræða vöktun á félagslegum afleiðingum hrunsins og nú þegar hæstv. félagsmálaráðherra hefur fengið verkið inn á borð til sín hefur hún lýst því þannig að möskva öryggisnets velferðarkerfisins þurfi að þétta þannig að fólk falli ekki á milli.

Ljóst hlýtur að vera að ýmsir hópar samfélagsins eru varnarlausari en aðrir í þeim erfiðleikum sem þjóðin stendur frammi fyrir og mætti þar t.d. nefna ungt fólk en líka foreldra, börn, öryrkja, aldraða, innflytjendur, sjúklinga og fleiri.

Ég vil því spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvernig velferð er skilgreind í ráðuneytinu því að við vitum að samhengi hlutanna breytir þeim. Það sem þótti sjálfsagt í september þykir það kannski ekki lengur. Matvandur maður étur það sem að kjafti kemur ef hann er svangur.

Því væri gott að vita hvaða viðmið verða lögð til grundvallar, hvaða hópar samfélagsins verða undir sérstöku eftirliti, í hverju eftirlitið er fólgið, hvaða upplýsingum á að safna og hvernig þær verða nýttar.