136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

fjárhagsvandi heimila.

297. mál
[14:39]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir spyr hér mjög mikilvægra spurninga um aðgerðir til að bregðast við vanda heimilanna og um velferðarvaktina.

Öllum er ljóst að við sem stjórnmálamenn, og þá ekki síst þeir sem sitja í ríkisstjórn, stöndum frammi fyrir mjög stóru og krefjandi verkefni sem m.a. felst í því að finna raunhæfar leiðir til að bregðast við fjárhagsvanda heimilanna í landinu. Við getum orðað það svo að unnið sé í öllum hornum Stjórnarráðsins þessa dagana og hefur margt af þeirri vinnu þegar verið kynnt í formi frumvarpa.

Eitt þeirra verkefna sem tilgreind eru í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar til að bæta hag heimilanna er að koma á velferðarvakt, eins og hv. þingmaður nefndi hér. Henni er ætlað að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins á fjölskyldur og þar með heimilin í landinu. Ég hef þegar skipað vinnuhóp sem ætlað er að stýra verkefninu en þar eiga sæti fjölmargir aðilar, þar á meðal fulltrúar ráðuneyta, kennara, kirkjunnar, Samtaka aðila vinnumarkaðarins og Rauða kross Íslands. Ég hef skipað Láru Björnsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, formann hópsins og verður fyrsti fundur haldinn í þessari viku.

Mikilvægt er að einum aðila verði falið það hlutverk að fylgjast með öllum þeim fjölmörgu aðgerðum sem eru í gangi, hann fái heildarsýn yfir allar aðgerðirnar þar sem ljóst er að víða er unnið að mörgum góðum hlutum, bæði innan stjórnkerfisins og hjá öðrum. Þess vegna er stýrihópi velferðarvaktar ætlað að afla upplýsinga um það sem þegar hefur verið gert til að bregðast við og kortleggja allar viðbragðsáætlanir ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka. Samsetning stýrihópsins endurspeglar að nokkru leyti hvers konar upplýsinga verður aflað og ég geri ráð fyrir að hver fulltrúi í stýrihópnum nýti bakland sitt til að afla upplýsinga um afleiðingar efnahagsástandsins á mismunandi hópa. Þá gefst kostur til að meta hvar við þurfum að gera betur, hvort þurfi að samhæfa aðgerðir svo að sem bestur árangur náist. Áhersla verður á sveigjanleika og gagnkvæma miðlun upplýsinga þannig að samfélagið allt verði vaktað svo vel sem kostur er. Ég hef því lagt ofuráherslu á það að stýrihópurinn hafi sem mest samráð við alla þá sem hafa þekkingu eða sinna þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur og kalli eftir tillögum um aðgerðir. Einnig að haldnir verði reglulegir samráðsfundir með þeim til að heyra hugmyndir þeirra og hvað þeir telji að betur megi fara og hvernig best verði tekið á vandanum.

Ljóst er að einstaka hópar í samfélaginu verða harðar fyrir barðinu á afleiðingum efnahagsástandsins en aðrir. Verkefni velferðarvaktarinnar er því m.a. að fara yfir hvaða hópar það eru og að koma með tillögur að aðgerðum til að mæta aðstæðum þeirra ef þess er nokkur kostur. Við getum svo sem sagt okkur sjálf að þar á meðal eru þeir sem hafa misst vinnuna og fjölskyldur þeirra. Það eru því miður fjölmargir þessa dagana, eins og tölur Vinnumálastofnunar bera merki um. Líklegt er að fjárhagserfiðleikar leiði í einhverjum tilvikum til þess að fólk missi húsnæði sitt samhliða aukinni fátækt. Slíkir erfiðleikar geta leitt til einangrunar og andlegrar vanlíðanar svo sem kvíða, depurðar og þunglyndis, versnandi heilsufars og hættu á misnotkun áfengis og vímuefna.

Þá hafa rannsóknir sýnt að heimilisofbeldi getur aukist svo og vanræksla á börnum. Þeir hópar sem eru í sérstakri áhættu eru m.a. börn, unglingar, fólk án atvinnu, fátækir, aldraðir, fatlaðir og einstæðingar. Þá þarf að huga sérstaklega að ungum fjölskyldum með börn og fjölskyldum af erlendum uppruna sem hafa ekki sterkt stuðningsnet, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni.

Virðulegi forseti. Nauðsynlegt er að forgangsraða opinberum fjármunum og því er mikilvægt að ákvarðanir verði teknar af þekkingu, m.a. á afleiðingum þessa til langs tíma. Þess vegna er jafnframt mikilvægt að líta til reynslu annarra þjóða sem hafa lent í sambærilegum efnahagsþrengingum, svo sem Finna, Svía og Færeyinga, svo komast megi hjá hugsanlegum mistökum.

Verkefnið sem bíður stýrihópsins er því ærið en tíminn er naumur. Hef ég óskað eftir því við hópinn að hann afhendi mér áfangaskýrslu um miðjan marsmánuð en gert er ráð fyrir að stýrihópurinn haldi verkefninu áfram eftir þann tíma. Þetta verkefni verður ekki leyst vel af hendi nema allir leggi sitt af mörkum. Til að opinberir fjármunir velferðarþjónustu nýtist sem best verðum við að virkja alla, félagasamtök, sjálfboðaliða og nærsamfélagið allt.