136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

fjárhagsvandi heimila.

297. mál
[14:51]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum þeim þingmönnum sem hafa lagt hér inn góð orð og ábendingar. Ég get sannfært þingmenn um að það verður tekið tillit til allra ábendinga hvaðan sem þær koma. Lögð var rík áhersla á það þegar velferðarvaktin var sett á laggirnar að hún hefði strengi sem víðast út í samfélagið og það er reynt að ná til sem flestra. Þau atriði sem menn hafa nefnt hér eru öll mjög mikilvæg og þættir sem við höfum einmitt rætt í ráðuneytinu við undirbúning skipunar velferðarvaktarinnar sem funda mun fyrst í þessari viku.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði um heimilin og skjaldborgina um þau. Það er geysilega mikilvægt verkefni sem er þar fram undan. Ég hef einmitt rætt við hæstv. viðskiptaráðherra um að við þurfum að tryggja það að ríkisbankarnir veiti sömu þjónustu og Íbúðalánasjóður gagnvart þeim sem þar skulda. Sú vinna er svo sannarlega í gangi og því verður fylgt eftir.

Varðandi sálrænu áhrifin þá er það rétt að kvíði sækir að fólki við þessar aðstæður og að því þarf að huga. Það þarf að styðja við og vernda börnin og aldraða og það þarf líka að huga að því með börnin að áhrifa þessa ástands gæti ekki til framtíðar, hafi ekki áhrif á komandi kynslóðir jafnvel þegar þessi kynslóð vex úr grasi.

Hv. þm. Ragnheiður Ólafsdóttir talaði líka um bankana og ég geri ráð fyrir að ég sé búin að svara því sem þar kom fram. Svo vil ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur, kærlega fyrir. Við munum leita víða, við erum opin fyrir öllum ábendingum og hópurinn er þakklátur fyrir að sinna þeim. Það er alveg rétt að það eru hópar sem aldrei hafa þurft að sækja sér aðstoð en þurfa núna að brjóta odd af oflæti sínu og stíga þau erfiðu spor sem þeir hafa aldrei stigið áður. Það er mjög erfitt fyrir marga og það þekkjum við vel.