136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

hlutur kvenna í stjórnmálum.

301. mál
[14:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Sú er hér stendur fékk samþykkta þingsályktun á sínum tíma um verkefni til að auka hlut kvenna í stjórnmálum og það verkefni var samþykkt hérna og fór í gang. Afraksturinn var mjög góður og konur náðu þeim árangri að ná um 35% hlut í þingkosningunum sem fóru fram eftir að þetta verkefni hófst. Því lauk síðan og hlutur kvenna hrapaði mjög mikið í kosningunum þar á eftir og fór niður í rúmlega 30%. Í síðustu kosningum náðum við ekki upp þessum stóra sigri, ef svo má kalla, þegar við náðum 35% hlut kvenna í þinginu, í kosningunum fyrir tveimur árum var hlutur kvenna tæplega 32%. Það voru sem sagt kjörnar 20 konur en rúmlega helmingi fleiri karlar, þ.e. 43 karlar.

Nú horfum við fram á prófkjör og þess vegna langar mig að heyra hvað hæstv. félagsmálaráðherra vill segja um þessa stöðu, af því að ég hef mjög miklar áhyggjur af stöðu kvenna í stjórnmálum í augnablikinu. Í síðustu kosningum, og ég vil taka það sérstaklega fram, voru sjö konur oddvitar lista og ég ætla að nefna þær, virðulegi forseti. Það voru hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sú er hér stendur og Jónína Bjartmarz fyrir hönd Framsóknarflokksins, fyrir hönd sjálfstæðismanna var hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrir Samfylkinguna hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fyrir vinstri græna voru það hæstv. ráðherrar Kolbrún Halldórsdóttir og Katrín Jakobsdóttir.

Núna er staðan sú að það er alveg greinilegt að ekki ætla allar konur að sækjast eftir sínum sætum, hvorki í þinginu né í oddvitastöðum. Ég vil nefna sérstaklega að vinstri grænir ætla greinilega að reyna að standa sig þar. Ég skil það alla vega svo að hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir muni sækjast eftir sínu oddvitasæti áfram og hæstv. ráðherra Kolbrún Halldórsdóttir líka. Hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson ætlar að víkja fyrir Guðfríði Lilju Grétarsdóttur vegna kynjasjónarmiða, a.m.k. opinberlega þó að ekki hafi farið fram kjör, þannig að vinstri græn stíla greinilega upp á þrjá oddvita af báðum kynjum, þrjá og þrjá.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem er eini oddviti sjálfstæðismanna, fær samkeppni í prófkjöri frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, en undir leiðtogahæfileikum hennar í síðasta kjöri náði listi sjálfstæðismanna mjög góðum árangri í Suðvesturkjördæmi. Það gæti því farið að svo að sjálfstæðismenn væru ekki með neina konu í oddvitasæti. Auðvitað vitum við það ekki en þetta lítur illa út, virðulegi forseti.

Ég veit ekki hvernig þetta verður í mínum eigin flokki og ég veit heldur ekki með Samfylkinguna. Ég býst við að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sækist eftir oddvitasæti sínu áfram en hún var eini oddviti þeirra af kvenkyni í síðustu kosningum.

Mér þykir mjög brýnt að heyra hvað hæstv. jafnréttisráðherra hefur að segja um þessa stöðu af því að nú fara prófkjörin að dynja yfir.