136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

hlutur kvenna í stjórnmálum.

301. mál
[15:02]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og jafnframt ráðherranum fyrir svörin. Ég held að full ástæða sé til að hafa áhyggjur af því sem fram undan er í prófkjörum þeirra flokka sem bjóða fram. Mig langar aðeins, hæstv. forseti, til að fara yfir stöðuna í mínum eigin flokki, Samfylkingunni. Í kosningunum 1999 voru kjördæmin átta og konur oddvitar í fjórum þeirra. Í 17 manna þingflokki voru konur fleiri en karlar, þ.e. 9 á móti 8.

Í kosningunum 2003 voru kjördæmin orðin 6 og konur oddvitar í þremur þeirra. Í 20 manna þingflokki voru 9 konur og 11 karlar. Í kosningunum 2007 var aðeins ein kona oddviti lista en hún er einnig formaður flokksins. Í 18 manna þingflokki okkar í dag eru 6 konur eða aðeins þriðjungur og ég hygg að þetta sé svona í öllum flokkum. Ég held að konur og karlar í öllum stjórnmálaflokkum landsins eigi að setja sér það takmark í þeim prófkjörum og kosningunum sem fram undan eru að leiðrétta þennan hlut vegna þess að það er spurning um lýðræðishalla í íslensku samfélagi þegar listar flokkanna eru skipaðir með þessum hætti.

Ég sé að tími minn er liðinn, hæstv. forseti, en ég vildi eingöngu (Forseti hringir.) koma inn á þessa tölfræði vegna þess að ég tel að staðan sé sú sama í öðrum flokkum — nema kannski hjá (Forseti hringir.) Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem (Forseti hringir.) hefur sett sér metnaðarfullt markmið í komandi prófkjörum.