136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

hlutur kvenna í stjórnmálum.

301. mál
[15:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil stuttlega fagna umræðunni sem fram fer um þetta mikilvæga mál og segja að ég hef áður tekið þátt í umræðu um þetta mál á þingi fyrir ekki löngu síðan. Sjálfur hóf ég afskipti af stjórnmálum með setu í borgarstjórn 1994 og var þá í hópi 8 borgarfulltrúa sem voru kjörnir fyrir Reykjavíkurlistann sem var sameiginlegt framboð. Við vorum þar þrír karlar og fimm konur og ég hef átt því að venjast í því pólitíska starfi sem ég hef tekið þátt í að gott jafnræði sé á milli kynja. Augljóslega er mjög þýðingarmikið að svo sé og við leitum leiða til að tryggja að það verði gert.

Í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum við undanfarið reynt að tryggja það að á framboðslistum sé jafnt hlutfall og svokallaðir fléttulistar. Mér finnst mikilvægt að við hugleiðum hvaða leiðir við getum farið til að tryggja í löggjöf að svo verði. Nú eru hugmyndir um, eins og minnst var á, persónukjör sem væntanlega getur sett öll áform um slíkt í uppnám nema bundið sé í löggjöfina að tekið sé til einhvers konar fléttu, hvort sem listar eru raðaðir eða óraðaðir. (Forseti hringir.) Þessu þurfum við að huga mjög sérstaklega að því ella getum við lent í því (Forseti hringir.) að hlutur kvenna minnki enn.