136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

hlutur kvenna í stjórnmálum.

301. mál
[15:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fagna ber því að kona er í fyrsta skipti forsætisráðherra hér á landi og konur og karlar eru til jafns í ríkisstjórninni en það breytir ekki því að staðan er grafalvarleg. Hér var fullyrt að konum á landsbyggðinni vegnaði ekkert verr en körlum en það er alls ekki rétt. Í síðustu kosningum voru 24 karlar kjörnir úr landsbyggðarkjördæmum en einungis fimm konur miðað við þær upplýsingar sem ég hef.

Eftir kosningar til Alþingis árið 2007 var þingið þannig saman sett að þar sátu 43 karlar og aðeins 20 konur. Það er eitthvað mikið að, þessu þarf að breyta. Ég geri mér grein fyrir að hæstv. félagsmálaráðherra er í þröngri stöðu af því að kosningar ber svo brátt að núna, við erum skyndilega komin í kosningabaráttu, við erum skyndilega komin í prófkjör, þannig að erfitt er að setja í gang mikil átaksverkefni. Ég vil samt beina því til hæstv. félagsmálaráðherra að athuga hvort Jafnréttisstofa geti beitt sér eitthvað í þessu máli, af því að það er svo mikilvægt að fá meiri umræðu í samfélagið almennt um stöðu kvenna í stjórnmálum. Við megum ekki missa þær konur út af þingi sem þar eru nú. Auðvitað munu einhverjar hætta en við þurfum að fá fleiri konur inn, við þurfum líka að fá fleiri konur sem leiða lista og eru fyrirmynd annarra kvenna sem geta hugsað sér að fara í pólitík.

Það er ekki alvörulýðræði fyrr en konur eru til jafns við karla á Alþingi eins og á þingum annars staðar í heiminum. (Gripið fram í.) Því miður er staðan mjög slæm víða annars staðar en samt sættum við okkur ekki við stöðuna eins og hún er núna. Það hefur orðið mikið bakslag, við hrundum úr 35% niður í 32%, við höfum ekki náð til baka þeim árangri sem við náðum mestum. Það er alveg ljóst að sú er hér stendur mun bíta í skjaldarrendur fyrir allar konur í pólitík til að reyna (Forseti hringir.) að efla hlut þeirra af því að það er ekki lýðræðislegt að hafa svona mikinn halla, virðulegur forseti.