136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

málefni aldraðra.

303. mál
[15:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ólafsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að sú umræða sé eins og áður alltaf nauðsynleg. Ég vil líka þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir þau orð hennar að hún telji að þjónustan eigi að færast á hendur sveitarfélaga. Ég held að það sé grundvallaratriði í allri öldrunarþjónustu að hún færist til sveitarfélaganna með þeim tekjustofnum sem á þarf að halda vegna þess að þar þekkir fólk til og það skiptir máli.

Ég bið samt fólk um að athuga að aldraðir eru ekki allir sjúkir. Við þurfum við að hlúa að þeim en jafnframt þurfum við að gera fólki sem vill búa heima hjá sér kleift að geta það eins lengi og unnt er og veita því öfluga heimaþjónustu samhliða félagsþjónustu og treysta þannig bönd í heimabyggð. Það er skiptir eldra fólk máli, jafnt sjúkt sem heilbrigt.