136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

málefni aldraðra.

303. mál
[15:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ólafsdóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka félagsmálaráðherra fyrir góð svör. Ég ætla að leyfa mér að vona að bót og betrun verði fram undan því að það er svo sannarlega það sem þarf. Ég get tekið undir það að mjög gott og æskilegt væri að hægt yrði að koma öllum málefnum aldraðra yfir til sveitarfélaga. Í dag hafa sveitarfélögin ekki fjárhagslegt bolmagn til að taka við þeim málaflokki en við skulum vona að það geti orðið í framtíðinni. En ég yrði þakklát ef málefni aldraðra færu frá heilbrigðisráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Þar eiga þau heima, alla vega í bili.

Mér finnst skipta miklu máli, og hvet ráðherra til að ræða þessi mál í ríkisstjórninni og fá varanlegar lausnir, að samskipti séu milli vistunarmatsnefnda ríkis og sveitarfélaga, að þar komist á raunveruleg samskipti þannig að fólk standi ekki í lausu lofti og viti ekki í hvorn fótinn það á að stíga eða hvert það á að snúa sér, það gengur ekki í dag. Okkur ber skylda til að sjá um að kynslóðin sem byggði þetta land fái að lifa við mannsæmandi aðstæður síðustu árin sín, það er sú kynslóð ásamt öðrum sem hefur borgað okkur launin okkar. Aldraðir eiga ekki að þurfa að vera fluttir hreppaflutningum eins og fólk þurfti að gera á öldum áður. Það sæmir ekki Íslendingum í nútímaþjóðfélagi að koma ekki vel fram við aldraða.