136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

málefni aldraðra.

303. mál
[15:34]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum, sem tóku þátt í þessari umræðu, fyrir gott innlegg. Ég tek heils hugar undir þau öll. Það er rétt, aldraðir eru fjölbreyttur hópur. Ég tek undir það með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að öllum tiltækum ráðum ber að beita til að gera fólki kleift að vera heima eins lengi og það getur og fá þjónustu heim. Það á að vera stefnan og öldrunarþjónusta er nærþjónusta. Hún á að vera hjá sveitarfélaginu og vonandi tekst okkur að koma þeim málaflokki yfir til þeirra og þá auðvitað með þeim tekjustofnum sem eiga að fylgja.

Þegar lögin um málefni aldraðra voru til umræðu í þinginu þá var, af því að hv. þm. Ragnheiður Ólafsdóttir nefnir vistunarmatið, fyrirkomulagi sem snýr að vistunarmatinu breytt. En ég tel að sú breyting hafi ekki verið nógu góð, ég tel að taka þurfi á þeim þætti. Reynslan af því fyrirkomulagi sem þá var samþykkt hefur ekki verið sem skyldi. Það er kostnaðarsamara, gerir kerfið flóknara fyrir notendur, og var það þó nægilega flókið fyrir, og það sem verra er, það hefur hent að aldraðir, sem hafa þurft á þjónustu að halda, hafa lent á milli kerfanna af því að þetta hefur verið í tvennu lagi og þeir hafa ekki fengið þjónustu við hæfi. Ég tel mjög mikilvægt að þetta verði leiðrétt.

Ég get nefnt það hér að ég hef tekið upp umræðu um málefni aldraðra í ríkisstjórninni vegna þess að ég tel að ganga verði frá því að málaflokkurinn verði allur undir félagsmálaráðuneytinu en svo er ekki enn þá. En ég tel að hægt verði að leysa það í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég ber alla vega mjög ríka von til þess og ég þakka fyrir þessa umræðu.