136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur að nýrri byggðaáætlun.

306. mál
[15:52]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það getur vel verið að einhverjum hv. þingmönnum, eins og hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og fleirum, þyki á einhvern hátt vegið að landsbyggðinni með því að vekja eftirtekt á því hér að byggðamálaráðherra úr 101 hefur bara ekkert staðið sig verr en fyrri byggðamálaráðherrar. Og hann hefur ekki látið landsbyggðina sitja á hakanum. Hví segi ég þetta? Vegna þess að hv. þingmenn, að vísu ekki úr þessum ágæta flokki, rifu sig niður í rass hér á sínum tíma (Gripið fram í.) þegar í ljós kom að byggðamálaráðherra var skipaður úr 101 og töldu að með því væri verið að fórna hagsmunum landsbyggðarinnar.

Eitt get ég fullvissað hv. þingmann um og það er að sá byggðamálaráðherra sem hér stendur lætur landsbyggðina ekki sitja á hakanum nema síður væri. Það er enginn málaflokkur sem ég ver jafnmiklum tíma í og sem ég hef haft jafngaman af og uppskorið jafnmikið vanþakklæti fyrir að sinna og einmitt byggðamálin. Mér þykir einfaldlega vænt um landsbyggðina og ég hef haft ómælt gaman af að kljást við þau erfiðu viðfangsefni sem þar er að mæta.

Þegar hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir talar um óskilgreinda potta og sjóði. Eru það hinir óskilgreindu pottar og sjóðir sem ég og fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra börðumst fyrir, t.d. til þess að styrkja og efla vaxtarsamninga á landsbyggðinni? Til þess að búa til nefndir? Til þess að framkvæma ákvarðanir Vestfjarðanefndarinnar og setja upp Norðausturnefndina og Norðvesturnefndina? Það getur vel verið að það sé það sem hv. þingmaður á við.

En ég segi bara að sú ríkisstjórn sem ég var í nú undir síðustu mánaðamót stóð sig mjög vel í byggðamálum og þar lögðust allir menn á þá sveif.

Hitt er bara ljóst sem ég vil ítreka hér að það hefur verið pólitískt samráð. Það má auðvitað segja að það sé ekki síður ávinningur þeirra ríkisstjórna sem áður sátu en það gerðist alla vega í tíð byggðamálaráðherra úr 101 (Forseti hringir.) að það var í fyrra í fyrsta skipti í áratugi sem þróunin snerist við og það er bara í gadda slegið í tölum. (Gripið fram í: Í stjórnarforustu hverra?)