136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

setning neyðarlaganna.

[10:38]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag hef ég áhyggjur eins og svo marga aðra daga en á skömmum tíma hafa verið sett tvenn lög á Alþingi sem virðast brjóta gegn stjórnarskrá. Er þar um að ræða lög nr. 125/2008, svokölluð neyðarlög, og breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki.

Nú geta orðið slys og þau eiga sér stað hér hjá okkur en þau lög sem ég vitna til voru sett og afgreidd í þinginu þó að menn vissu að líklega stönguðust þau á við stjórnarskrá og það finnst mér alvarlegt mál, virðulegi forseti.

Nú þegar hefur fallið dómur í héraðsdómi um að breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki stangist á við 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í þeim dómi kemur fram að aðstæður í efnahagsmálum geti ekki réttlætt frávik frá stjórnarskrá með því að vísa í stjórnskipulegan neyðarrétt. Neyðarlögin voru sett í skjóli stjórnskipulegs neyðarréttar sem fræðimenn eru ekki sammála um að sé raunverulega fyrir hendi, enda er slíkum rétti yfirleitt beitt í tengslum við stríð. Hér á landi hefur slíkum rétti verið beitt í þrígang, í öllum tilvikum á stríðsárunum og við aðstæður tengdar hernaðaraðgerðum.

Talið er að neyðarlögin kunni að brjóta gegn fleiri en einu stjórnarskrárákvæði og hafa verið nefnd í því samhengi jafnræðisregla, meðalhófsregla, atvinnufrelsisákvæði og eignarréttarákvæði. Mig langar því að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvert mat hennar er á setningu þessara laga, hvort Alþingi hafi með setningu neyðarlaganna bakað sér hugsanlega skaðabótaábyrgð eða hvort hún telji að stjórnskipulegur neyðarréttur sé til og honum sé hægt að beita í þessu tilviki.