136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

listaverk í eigu ríkisbankanna.

[10:50]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um afstöðu hans til listaverka sem í dag eru í eigu nýju ríkisbankanna þriggja. Þau munu vera um fjögur þúsund talsins. Um 1.700 verk voru í eigu Landsbankans gamla, um 1.200 í eigu Kaupþings og tæplega 1.100 í eigu Glitnis og eftir því sem ég best veit eru öll þessi listaverk nú í eigu nýju bankanna þriggja og þar með í ríkiseigu.

Fyrir þinginu liggja tvö þingmál sem varða þetta eignarhald, annars vegar frumvarp sem er á dagskrá í dag, þar sem kveðið er á um það að listaverkin verði eign ríkisins, og hins vegar tillaga til þingsályktunar, efnislega um það sama. Samtals eru fimm þingmenn flutningsmenn að þessum tveimur þingmálum. Af þeim eru tveir nú orðnir ráðherrar, hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. umhverfisráðherra, og ljóst að innan þingsins er töluverður stuðningur við það sjónarmið að listaverk verði í eigu þjóðarinnar og ekki verði tekin frekari áhætta en orðið er á að hafa þau í eigu bankanna, sem munu þegar fram líða stundir verða seldir úr höndum ríkissjóðs.

Ég vil því spyrja hæstv. menntamálaráðherra, fyrst hann hefur nú stöðu til að breyta frá orðum til athafna hvort hann muni beita sér fyrir því að þessi listaverk verði gerð að eigu þjóðarinnar.