136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

listaverk í eigu ríkisbankanna.

[10:54]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það hjá hæstv. menntamálaráðherra að fyrri eigendur gömlu bankanna stóðu sig vel í því að geyma listaverkasöfn sín og efla þau. Ég tel það vel koma til greina að verði það að ráði sem lagt er til, að þessi söfn verði í eigu þjóðarinnar og ríkisins, verði bönkunum falið að varðveita þau og sýna. Þeir hafa sýnt að þeim er vel treystandi til þess. Jafnvel þó að síðar verði aðrir eigendur má semja við þá um það.

Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Ljóst er að hjá honum er vilji til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Það er líka ljóst að hann hefur stuðning a.m.k. tveggja annarra ráðherra í málinu og að innan þingsins er verulegur stuðningur við þetta mál þannig að ég vænti þess að það takist að leiða það til lykta á þessu þingi, fyrir kosningar.