136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

starfsemi Byggðastofnunar.

[10:56]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Mikið er rætt um að það beri að leggja áherslu á tillögur til bóta fyrir fjölskyldur og atvinnulíf í landinu og ég vil eiga orðastað við hæstv. iðnaðarráðherra um þátttöku Byggðastofnunar í þeim málum. Hér var í gær á hinu háa Alþingi ágæt umræða um byggðaáætlun en ekki auðnaðist að ljúka svörum við öllum þeim atriðum sem þar voru til umræðu. Eitt af því sem þar var nefnt er að undanfarið hafa staðið yfir viðræður á milli iðnaðarráðuneytisins, viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins um hvort unnt sé að Byggðastofnun verði undanþegin skilmálum varðandi regluverk fjármálastofnana. Nú hefur niðurstaða orðið um að svo er ekki þannig að í ljósi eiginfjárstöðu stofnunarinnar er hún í miklu uppnámi. Að öllu óbreyttu mun Byggðastofnun ekki vera fær um að stunda lánastarfsemi, sem mörg smærri fyrirtæki og atvinnurekstur um allt land hafa reitt sig á í því árferði sem verið hefur undanfarin ár og eru í raun háð stofnuninni um fjárhagslega fyrirgreiðslu til að ná að stunda atvinnurekstur sinn.

Ég óska eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra, sem upplýsti það hér í gær í umræðum að hann hefði átt mjög gott samstarf og náð miklum árangri í fyrra ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn — og ég þakka sérstaklega fyrir þau hrósyrði sem þar komu fram. Þetta er sennilega í fyrsta skipti eftir að hin nýja ríkisstjórn tók við völdum að fyrri samstarfsflokki Samfylkingarinnar er hrósað fyrir samstarf í ríkisstjórn og það ber að virða og kærar þakkir fyrir það — svari þessari spurningu:

Hvernig verður lánastarfsemi Byggðastofnunar háttað á næstu mánuðum í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin?