136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

starfsemi Byggðastofnunar.

[11:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þau svör sem hæstv. ráðherra gaf hér svo langt sem þau ná. Ég ætla það hins vegar að þau dugi ekki þeim forsvarsmönnum fyrirtækja sem bíða eftir svörum frá þeirri stofnun sem hér um ræðir.

Hæstv. ráðherra hafði hér uppi þau orð, þegar hann talaði um ágætt samstarf, m.a. við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, að stofnunin hefði verið lens. Þá ætla ég að hæstv. iðnaðarráðherra geti í samstarfi við þingmenn og hæstv. ráðherra Vinstri grænna, sem hafa haft uppi mjög stór orð um gildi og mikilvægi þessarar stofnunar — að það liggi þá fyrir einhver vilyrði og samkomulag ríkisstjórnarflokkanna um það með hvaða hætti tekið verði á málefnum þessarar stofnunar. Ég óska eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra upplýsi um þau áform sem þar eru á döfinni.