136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[11:39]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Hvar í þjóðfélagsstiganum sem við stöndum og hvar í flokk sem við skipum okkur eru Íslendingar almennt talað þeirrar skoðunar að undirstaða þjóðfélagsins sé menntun og heilbrigði. Við viljum öfluga heilbrigðisþjónustu sem snýr að aðhlynningu, hjúkrun, lækningum og endurhæfingu. Við viljum skjóta skjólshúsi yfir þá sem eru andlega eða líkamlega veikir enda eigum við góða heilsugæslu, sjúkrahús, stofnanir og fagfólk sem jafnan er talið með því fremsta og besta í heiminum.

Sú staðreynd að útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála eru þau mestu og hæstu í ríkisfjármálum og í fjárlögum í langan tíma er staðfesting á því að þessari stefnu hefur verið framfylgt. Hitt er svo annað mál að til margra ára hefur þróunin verið sú að við höfum farið fram úr okkur í kostnaði í heilbrigðisgeiranum og hallarekstur í þessum stóra málaflokki hefur verið árlegt viðfangsefni Alþingis og heilbrigðisstofnana.

Í kjölfar efnahags- og fjármálahrunsins var ljóst að enn þurfti að höggva í þennan sama knérunn og lækka útgjöldin um allt að 7 milljarða við afgreiðslu fjárlaga nú í desember. Þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra leitaðist við að koma til móts við þessar kröfur og Samfylkingin stóð með honum í þeim leiðangri. Nú blasir við að ráðast verður í enn frekari niðurskurð, það er hverjum og einum fullkomlega ljóst. Ríkisstjórn og hæstv. heilbrigðisráðherra er sá vandi á höndum.

Sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að efnahagserfiðleikar Íslendinga séu tímabundnir, erfiðir, afar erfiðir, en tímabundnir. Þá sé best og skynsamlegt að taka þennan slag með því að setja hausinn undir sig og láta reyna á þolrifin, skerða laun, skerpa á kostnaðarvitund og skera það niður sem helst má missa sig án þess að þjónustan dragist saman í þeirri viðleitni að allir fái þá aðhlynningu sem nauðsyn krefst.

Grundvallarskilyrði og forsenda allra sparnaðaraðgerða felst í því að grunnþjónustan haldi velli og um hana verðum við að standa vörð hvað sem það kostar. Leitast er við og raunar tekist á um þær leiðir sem farnar eru til niðurskurðar og hagræðingar í heilbrigðiskerfinu sjálfu, eins og í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við. En þarna eru þolmörk og þegar að þeim er komið er ljóst að sparnaður í ríkisrekstri á öðrum sviðum getur verið nauðsynlegur til að verja heilbrigðisþjónustuna. Hún á að hafa forgang umfram flest ef ekki öll verkefni hins opinbera.

Ég leyfi mér að halda því fram að í heilbrigðisgeiranum, eins og víðar í starfsemi ríkisins, hafi safnast spik og það spik verður nú að skera í burt. Einnig þarf að breyta verkaskiptingu, breyta rekstri og hagræða í yfirstjórn og vinnufyrirkomulagi hvers konar, það er óhjákvæmilegt. Viðleitni fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra var í þessa áttina og ég tek ekki og tók ekki undir gagnrýni á þær tillögur sem hann lagði fram og ætlaði á sínum tíma að hrinda í framkvæmd.

Sjúklingaskattur var það kallað þegar lagt var til að sjúklingar greiddu innritunargjald rétt eins og þar væri um að ræða nýmæli. Við megum ekki gleyma því að fólk sem lagst hefur inn á spítala hefur greitt slíkt innritunargjald um langan tíma ef það er ekki lagt inn strax og það greinist með sjúkdóma. Á þessu hefur verið munur en þessi gjaldtaka hefur verið viðurkennd og framkvæmd.

Það hét líka einkavæðing í munni þáverandi stjórnarandstöðu þegar ákveðið var að stofna til Sjúkratryggingastofnunar sem hefur það umboð að kalla eftir tilboðum um þjónustu þeirra sem kunna til verka og geta sinnt hlutverki sínu með ódýrari hætti en ella. Við höfðum ekkert við það að athuga.

Það var líka hávaði út af fyrirhuguðum breytingum á rekstri St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Sá hávaði var skiljanlegur og mótmæli gegn ákvörðunum um niðurskurð eru eðlileg eftir atvikum en í þessu tilfelli er þó rétt að minna á, eins og gert hefur verið í þessari umræðu, að sumir starfsmenn sem höfðu og hafa aðstöðu á þessum spítala kostuðu ríkissjóð allt upp í 24 millj. kr. í laun á ársgrundvelli og það ofan á önnur laun, og er ég þá ekki að gera lítið úr þessum nefnda spítala. Fleiri dæmi af þessu tagi má nefna og spurt er: Er það þetta sem við viljum? Er það svona sem við viljum verja þeim peningum sem fara í heilbrigðismálin?

Herra forseti. Við megum ekki blekkja okkur sjálf og drekkja okkur í misskildri notkun á orðaleppum sem notaðir eru um ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar, hvort heldur sú þjónusta er innt af hendi á opinberri stofnun eða á einkastofnun. Aðalatriðið er að þjónustan sé veitt óháð stöðu, aldri eða efnahag og að kostnaðurinn sé viðráðanlegur. Við þurfum að leita allra leiða til að draga úr kostnaði á heilbrigðissviðinu, skoða kjör lækna og stjórnenda, hagræða og sameina, draga úr yfirbyggingunni og gæta hófs í rekstri spítala og stofnana. Þar er margt sem hægt er að gera, enginn er heilagur í þeim efnum. Hver og einn verður að axla ábyrgð og finna til samfélagslegrar ábyrgðar, forréttindin eru nefnilega fyrir bí.

Eftir stendur að heilbrigðisþjónustan er hornsteinn í nýju samfélagi sem við verðum að varðveita hvað sem það kostar. Nauðsynlegar breytingar, tilfærslur og jöfnuður í kjörum og aðbúnaði, eru nauðsyn dagsins og sá dagur er runninn upp að taka verður til í hverju horni. Veislunni er sem sagt lokið. Við verðum að skera spikið í burtu en halda grundvallarþjónustunni gangandi. Hversu aum sem við erum, hversu miklar sem byrðarnar verða í þessari efnahagskreppu skulum við aldrei gefast upp gagnvart því háleita og göfuga markmiði að líf og heilsa, að umönnun þeirra sem eiga um sárt að binda og þurfa að leita á náðir heilbrigðiskerfisins verði slík að þar fái fólk fullkominn aðbúnað og lækningu eins og þekking og tækni bjóða upp á.

Hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra hefur ýmis áform á prjónunum og hefur nú þegar tekið til hendinni. Við getum deilt um sérhverja slíka ákvörðun en sameiginlega berum við ábyrgð á því að þessi grunnstoð þjóðfélagsins, heilbrigðiskerfið, komist klakklaust út úr hruninu. Við verðum öll að horfast í augu við óvinsælar og umdeildar ákvarðanir á næstu dögum, vikum og mánuðum og taka afstöðu til þeirra með heildarmyndina að leiðarljósi.

Bærði fyrrverandi og núverandi heilbrigðisráðherrar hafa gert sitt til að bregðast við aðstæðum og Samfylkingin hefur stutt og mun styðja breytingar sem stuðla að hagræðingu og sparnaði án þess að undirstaðan hrynji. Þetta snýst ekki um flokkapólitík, þetta snýst um reisn okkar og sjálfsmynd. Þjónusta án tillits til efnahags, þjónusta fyrir þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda má aldrei skerðast.

Ég treysti núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra til góðra verka í þessum anda. Hans pólitíska sýn er sú sama og mín, að verja þjónustuna, verja sjúkrahúsin og starfsfólk þeirra en síðast en ekki síst að standa vörð um þau algildu og óumdeildu viðhorf hinnar íslensku þjóðar að heilbrigðisþjónustan haldi velli hvað sem öðru líður. Sú krafa er íslensku þjóðarinnar og það er í þágu starfsmanna í þessari þjónustugrein og okkar allra sem hér búum.