136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[11:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð nú bara að gangast við því að ég held ég hafi sjaldan tekið þátt í eða fylgst með jafnmálefnalegri og góðri umræðu og hér hefur verið um heilbrigðismálin. Mér finnst ræður hv. þingmanna sem hér hafa talað, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, hafa verið til mikillar fyrirmyndar. Hér hafa menn farið málefnalega yfir hlutina og ég get tekið undir flestallt sem hér hefur komið fram og það er varhugavert að fara að taka það allt saman út vegna þess að þetta voru, held ég megi segja, alveg frábærar ræður. Menn fóru yfir það hvað það er mikilvægt fyrir okkur að halda þessari grunnþjónustu, því fjöreggi sem heilbrigðisþjónustan er, og það er auðvitað þannig þegar menn fara að ræða þetta að við erum öll sammála um þessi markmið. Íslendingar eru sammála þessu og það er miklu betra að fara yfir þetta með málefnalegum hætti og reyna að finna flöt á hlutunum í stað þess að vera í hnútukasti og vera að ásaka menn hér inni eða annars staðar um einhverja hluti sem standast ekki.

Þetta var svolítið merkilegt vegna þess að vanalega er það þannig að svona tala menn sérstaklega þegar þeir eru ráðherrar en þingmenn leyfa sér kannski að ganga lengra í ásökunum og jafnvel dylgjum og slíkum hlutum. En í þessu tilfelli var þessu öfugt farið. Hér kom hæstv. ráðherra, sem á að leggja fram fyrir okkur skýrslu um hvað hann hyggst fyrir, og eyddi öllum tíma sínum í heift og hatur út í þann sem hér stendur. Auðvitað er það hans val, algerlega hans val. En nú er hv. þm. Ögmundur Jónasson hæstv. heilbrigðisráðherra og þegar hann varð heilbrigðisráðherra fannst mér færast yfir hann ákveðin innri ró og mér fannst hann tala af mun meiri ábyrgð en oft áður. Hann nefndi alveg réttilega að hann tekur ekki við neinu þrotabúi, því fer víðs fjarri. Í þessu eru mörg tækifæri og þetta er þjónusta sem við viljum halda utan um.

En mér finnst steininn taka úr þegar hann sagði í fullri alvöru að sá sem hér stæði hefði ekki tekið á launakjörum sérfræðinga á St. Jósefsspítala. Virðulegur forseti, missti ég af einhverju? Sá sem hér stendur hefur verið skammaður í margar vikur fyrir að hafa tekið á þeim málum og það var alveg ljóst þegar ég fór í þá vegferð að ég mundi fá á mig árásir frá tveim aðilum, annars vegar frá sérfræðingum, af því að ég væri þarna að taka á miklum hagsmunum, og hins vegar er ljóst að það er mjög viðkvæmt mál á landsbyggðinni að sameina stofnanir. En eins og hv. þm. Ellert B. Schram fór yfir og fleiri þingmenn þá lagði ég af stað í þá vegferð til að vernda grunnþjónustuna. En við tókum erfiðar ákvarðanir, mjög erfiðar ákvarðanir.

Spurningin er þessi og henni verður hæstv. ráðherra að svara: Ef hann ætlar ekki að fara þessa leið, hvaða leið á þá að fara? Með hverjum deginum sem þessari ákvörðun er frestað þá eru menn að senda reikning annað. Það liggur fyrir að menn eru að fara í miklar skipulagsbreytingar á Landspítalanum, mjög erfiðar aðgerðir, svo að dæmi sé tekið. Ef menn fresta öllu þessu þá spyr starfsfólk þar: Því skyldum við gera þetta ef aðrir sleppa? Það er stóra spurningin. Hæstv. ráðherra verður að svara því hvaðan hann ætlar að taka þessa fjármuni.