136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:40]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi fagna því að hér skuli gefast tækifæri til umræðna um heilbrigðismál og ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýrslu hans. Heilbrigðismál eru mikilvægur málaflokkur sem tekur til sín stóran hluta útgjalda þjóðarinnar og því er mikilvægt að menn hafi sífellt vakandi auga með kostnaðinum. Jafnframt er heilbrigðisþjónustan þess eðlis að hún snertir hverja einustu fjölskyldu í landinu og hvern einasta einstakling þó að í mismiklum mæli sé. Það er einmitt þessi viðkvæmi þáttur málsins sem gerir þá kröfu að vel sé á málum haldið, ekki bara í verki heldur líka í orði.

Öll viljum við njóta þeirrar bestu þjónustu sem völ er á og það brennur á heilbrigðisyfirvöldum á hverjum tíma að skipa málum þannig að sem mest fáist fyrir það fjármagn sem lagt er til heilbrigðisþjónustunnar. Ég tel að í fyrri ríkisstjórn, undir forustu fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, hafi verið tekin mörg mikilvæg skref í þá átt að skipuleggja þjónustuna þannig að sem mest fengist fyrir peningana. Gerðar voru ýmsar mikilvægar skipulagsbreytingar í þá veru. Ég vil nefna tvennt í þessu sambandi. Í fyrsta lagi hefur orðið gerbreyting á biðlistum á öldrunardeildum. Á síðasta ári náðist mikill árangur, t.d. voru 139 sjúklingar á Landspítalanum í upphafi árs með vistunarmat og biðu varanlegrar vistunar. Þessum biðlista var næstum eytt. Þetta leiðir aftur til þess að bráðasjúkrahús allra landsmanna getur betur sinnt hlutverki sínu og tekið við bráðveiku fólki. Í öðru lagi hefur náðst mikill árangur í lyfjamálum. Fyrrverandi heilbrigðisráðherra beitti sér fyrir því að opna lyfjamarkaðinn bæði gagnvart Norðurlöndum og með rökstuddri gagnrýni á regluverk Evrópusambandsins sem hefur valdið okkur Íslendingum miklum kostnaði. Nú er verið að byrja á breytingum í samræmi við gagnrýni fyrrverandi heilbrigðisráðherra.

Á síðasta ári var gripið til aðgerða til að halda aftur af kostnaðarhækkunum og náðist að lækka lyfjakostnaðinn sem samsvarar 1,5 milljörðum kr. Þarna er um verulega háar upphæðir að ræða. Fleira mætti nefna, virðulegur forseti, og vil ég draga athygli að tvennu í viðbót. Biðlistar eftir augnsteinaaðgerðum hafa verið styttir verulega með skipulagsbreytingum og aðgerðum á síðasta ári. Þær fóru úr 1.800 í 2.600. Sömuleiðis hefur mikill árangur náðst í að stytta biðlista barna sem bíða þjónustu á barna- og unglingageðdeildinni. Í byrjun kjörtímabilsins voru 165 börn á biðlista en nú eru þau 70.

Virðulegur forseti. Mig langar að gera sérstaklega að umtalsefni hlutverk annarra sjúkrahúsa en Landspítala – háskólasjúkrahúss. Við eigum afskaplega vel búin sjúkrahús bæði hvað varðar búnað og ekki síður sérhæft og reynslumikið starfsfólk. Þessi sjúkrahús gegna veigamiklu hlutverki í heildarþjónustu landsmanna og að mínu viti geta þau gegnt miklu stærra hlutverki en þau gegna í dag. Oft og tíðum þarf ekki að bæta miklu við kostnað til að auka þjónustuna verulega heldur er þörf á skýrari verkaskiptingu, samráði og samstarfi milli Landspítala – háskólasjúkrahúss og annarra sjúkrahúsa.

Sjúkrahúsið á Akranesi er dæmigert í þessu sambandi. Þar er rekin fæðingar- og kvensjúkdómadeild sem er með því besta sem gerist á landinu og konur á höfuðborgarsvæðinu koma þangað í vaxandi mæli til að fæða börn sín. Ekkert er því til fyrirstöðu að bæta þá aðstöðu. Á annað hundrað liðskiptaaðgerðir eru gerðar á sjúkrahúsinu og þar er rekið öflugt sjúkrahús með móttöku allan sólarhringinn fyrir bráðveikt fólk. Ég tel mjög brýnt að yfirstjórn heilbrigðismála hafi þessa stóru mynd í huga við ákvarðanir sínar. Að sumu leyti er kannski þörf á viðhorfsbreytingum og þá má t.d. nefna tilhneigingu til að allir fari suður og fái þjónustu. Þess vegna segi ég að við getum nýtt miklu betur þau sjúkrahús sem við eigum úti á landsbyggðinni og ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra geri það.