136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:55]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Á þremur mínútum tekst mér sennilega ekki að gera neina alvarlega úttekt á umræðunni, annað en að segja að hún hefur verið málefnaleg. Hún hefur snúist um stöðu heilbrigðismála í ljósi ástandsins, vegna kreppunnar sem veldur því að við þurfum að grípa til niðurskurðar á þessu mikilvæga sviði sem heilbrigðismálin eru. Ég minni líka á að þrátt fyrir allt hefur Alþingi með afgreiðslu fjárlaga í desember ákveðið að leggja til heilbrigðismálanna tæpa 120 milljarða. Þrátt fyrir allt erum við ekki nema 300.000 svo þetta er sæmilega vel í lagt. Ég hef ekki trú á öðru en að niðurskurður, þó að hann verði erfiður, ætti samt að vera framkvæmanlegur undir svona kringumstæðum.

Ég sat fund heilbrigðisnefndar í morgun þar sem við fengum í heimsókn fulltrúa Landspítala – háskólasjúkrahúss og þar var okkur sagt frá þeirri viðleitni og þeim ákvörðunum yfirstjórnar spítalans að hagræða og laga til í rekstrinum með ýmsum hætti, sem ég hef ekki tíma til að rekja, en tel aðdáunarvert og þakkarvert hvernig hefur verið tekið á málum þar. Ég held að slíkur niðurskurður sem þar er fyrirhugaður þurfi jafnframt að ganga yfir aðra vegna þess að eins og getið var um fyrr í umræðunni er ekki gott ef einhver tekur til heima hjá sér en aðrir ekki.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er kannski ekki alveg sammála mér um að þetta sé ekki flokkspólitískt viðfangsefni. Vissulega greinir okkur á um margt í framkvæmd og starfsemi heilbrigðisþjónustunnar að því er varðar gjöld og einkarekstur og einkavæðingu og samstarf spítala og stofnana o.s.frv. En þegar ég tala um að þetta sé ekki flokkspólitík, held ég að hægt sé að taka umræðuna saman með því að segja — og þau sem hér hafa talað eru öll á einu máli um það — að varðveita þarf og standa vörð um grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins og gefa ekkert eftir í þeim efnum. Ég skil það svo að þótt ágreiningur sé á milli manna stefnum við öll að því marki (Forseti hringir.) að heilbrigðisþjónustan standi kreppuna af sér.