136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[13:01]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið með ágætum hér í dag og komið víða við. Ég get hins vegar ekki tekið undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni þegar hann þakkaði hæstv. ráðherra fyrir góða skýrslu. Hún var óttalegt þunnildi og hana skorti algjörlega svör við þeirri spurningu sem lagt var upp með, hvernig hæstv. ráðherra ætlaði að ná markmiðum fjárlaga um niðurskurð upp á tæpa 7 milljarða í heilbrigðisþjónustunni.

Það eina sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra var að hann hrósaði sér af því að hafa náð meiri árangri en fyrrverandi heilbrigðisráðherra með því að setja 650 millj. kr. álögur á sjúklinga meðan sá fyrri, Guðlaugur Þór Þórðarson, hafði einungis sett á 100 millj. Það hafa aldeilis orðið hlutverkaskipti hér þegar hæstv. ráðherra og hv. þm. Ögmundur Jónasson er farinn að hrósa sér af því að setja á sjúklingaskatta. Öðruvísi mér áður brá.

Af því að ég er síðust á undan hv. þingmanni og hæstv. ráðherra Ögmundi Jónassyni í ræðustól vil ég nota þetta tækifæri til að ítreka spurningar sem ég kom fram með í fyrri ræðu minni. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að ná 7 milljarða kr. sparnaði í heilbrigðisþjónustunni? Hann hefur þegar nefnt hvernig hann hefur náð 650 millj. kr. Hann hefur hafnað skipulagsbreytingum um sameiningu stofnana á landsbyggðinni. Hann hefur tilkynnt að starfsemi St. Jósefsspítala muni halda áfram en undir handarjaðri Landspítala – háskólasjúkrahúss og hann hefur hafnað tillögu um samstarf kragasjúkrahúsanna og Landspítala – háskólasjúkrahúss sem átti að fela í sér um 1.300 millj. kr. sparnað.

Ég verð að segja að það er þunnur þrettándi. Ég er engu nær eftir skýrslu hæstv. ráðherra hér fyrr í dag um hvernig hann ætlar að ná þessum sparnaði. Hann kynnti engar grunnhugmyndir, engar nálganir, hann kynnti með engu móti hvers er að vænta. Óvissan í heilbrigðisþjónustunni er hin sama og áður.

Starfsfólkið sem hefur hlustað á okkur hér í dag veit ekkert hvað er fram undan. Mun t.d. starfsfólkið á Landspítalanum þurfa að una því að allur sparnaðurinn sem átti að nást í kragasjúkrahúsunum verði gerður að aðhaldi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Er það eingöngu Landspítalinn sem á að taka á sig byrðarnar? Það er margt sem þarf að svara og ég segi það bara að hæstv. ráðherra hefði betur notað tíma sinn hér fyrr í dag til að útskýra stefnu sína en að vera með svívirðingar í garð fyrrverandi ráðherra.

Hann nefndi sérstaklega ákvarðanir sínar varðandi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og hefur sagt að hann ætli að tryggja áframhaldandi starfsemi þar en ég fæ ekki séð hvernig það gengur upp. Ef hann ætlar að setja kröfu á Landspítalann um hagræðingu um leið og þeir eiga að yfirtaka St. Jósefsspítala er náttúrlega það fyrsta sem þeir gera að leggja niður þessa starfsemi og færa hana undir Landspítalann. Það er bara þannig. Þarna eru gamlar skurðstofur, þær hafa þjónað sínu en eru gamlar. Kostnaðurinn við aðgerðirnar er meiri en þörf er á, þær kosta það sama og á Landspítalanum en ættu að vera 25% ódýrari. Ég átta mig ekki á því hver breytingin er. Mér finnst hæstv. ráðherra vera að gefa Hafnfirðingum falsvonir með þessum yfirlýsingum sínum. Ef svo er ekki verður hann að útskýra tillögur sínar nánar hér á eftir.

Hæstv. ráðherra stendur frammi fyrir ákveðnum ákvörðunum frá fyrri heilbrigðisráðherra. Hann ætlar að snúa þeim öllum við. Þær ákvarðanir voru mjög erfiðar en skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustu eru einfaldlega ekki alltaf til vinsælda fallnar. Þær eru nauðsynlegar. Í þeirri stöðu sem við erum núna í eru þær nauðsynlegar og yfirstjórn heilbrigðismála, með hæstv. ráðherra í fararbroddi, verður að sýna kjark til að takast á við þetta verkefni. Hann getur ekki bara setið með hendur í skauti, hrist hausinn og sagt: Þetta eru ekki tillögur sem ég ætla að fara að ef hann hefur engar aðrar í staðinn.

Hann er búinn að gera tillögur um 650 millj. kr. en verkefnið er 10 sinnum meira. Ætlar hæstv. ráðherra að útskýra þetta fyrir okkur?