136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[13:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem um margt er ágæt. Til mín hefur verið beint ýmsum spurningum. Ég hef verið spurður um tilvísanakerfi innan heilbrigðisþjónustunnar. Sjálfur er ég því hlynntur. Okkur nægir hins vegar ekki tíminn sem við höfum til stefnu núna fram á vorið til að koma slíku kerfi á en verði ég áfram í þessu ráðuneyti verður það tvímælalaust tekið til skoðunar.

Það hefur verið spurt um greiðsluþátttökunefnd sem hefur starfað undir forsæti hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég sat í þeirri nefnd. Þar var margt sagt og margt ágætt reiknað. Staðreyndin er hins vegar sú að áætlanir nefndarinnar stóðust ekki og starfið var í of ríkum mæli út og suður. Ég hef ákveðið að taka tiltekinn þátt út úr þessu starfi, sem lýtur að lyfjunum, til þess að fá fram markvissa niðurstöðu. Það er nefnilega alveg hárrétt sem fram kom í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, það sem máli skiptir er að láta verkin tala. Hún taldi upp langan vinnulista sem hefur verið á borðum hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er alveg rétt, þar var margt að finna en það var bara minna um ákvarðanir. Það er líka rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það getur verið dýrt að hika, dýrt að bíða. Ég verð að segja að sú ákvarðanafælni sem hefur einkennt störf fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra (Gripið fram í.) hefur verið okkur mjög dýrkeypt, t.d. í lyfjamálunum. Hann hikaði í tvo mánuði, einn sjötta af þessu ári, með að koma fram með nýja lyfjareglugerð sem færði okkur sparnað upp á 100 millj. kr. Staðreyndin er sú að sú reglugerð var ekki bara lítil í sniðum, hún var líka ranglát. Ég hef velt því fyrir mér hversu vel hæstv. fyrrverandi ráðherra setti sig inn í þessi mál, þar sem hann situr hérna. Hvað olli því t.d. að hann tók þunglyndislyf úr svokölluðum B-flokki og færði yfir í E-flokk? Er þetta tæknilegt mál? Nei, þetta er ekki tæknilegt mál. Þetta þýða 1.750 kr. fyrir þann sem tekur þessi lyf. Ég nefni þetta sem dæmi.

Hvað olli því að hann ákvað að taka greiðsluskyldu sem hvíldi á magalyfjum, afnema þessa greiðsluskyldu trygginganna? Ég sneri þessu til baka, setti á greiðsluskylduna en lét greiðsluskylduna taka til ódýrustu lyfjanna.

Nú tala þau um sjúklingaskattinn. Það er alveg rétt að lyfjakostnaðurinn var færður upp um 10%. En það var gert með þeim hætti að þeim hópum sem erfiðast hafa var hlíft. Ég ætla að taka sem dæmi að reglugerðin þýðir að aflögulyfjakostnaður sjúklings sem er á magalyfi lækkar úr 59 þús. kr. í 22 þús. kr. með því að skipta úr dýru lyfi í ódýrt. Atvinnulausir sem nota þetta lyf þurfa eftir breytingu að greiða 6 þús. kr. á ári fyrir ódýrasta lyfið en greiddu áður 59 þús. kr. fyrir dýra lyfið sem á þá var ávísað. Ég get tekið fleiri dæmi um þetta sem sýna að þrátt fyrir 10% hækkun á þessari reiknireglu koma tilteknir hópar og þeir sem erfiðast eiga betur út.

Þegar við tölum hins vegar um sjúklingaskatta erum við að tala um sjóðsvélarnar sem hæstv. ráðherra lét setja upp á sjúkrahúsum landsins og rukka fyrir þegar menn lögðust inn á spítala. Þessum ákvörðunum var breytt og þær teknar til baka.

Síðan er hitt, ég hef setið í rúman hálfan mánuð í heilbrigðisráðuneytinu. Þessir dagar hafa einkennst af ákvörðunum. Við erum búin að setja St. Jósefsspítala inn í markvissan farveg. Starfsemin þar verður tryggð áfram í sátt við nærumhverfið, í sátt við Hafnfirðinga. Það er pólitík, hæstvirtur ráðherra, það er pólitík sem er fólgin í því að taka skurðstofurekstur frá St. Jósefsspítala, færa hann til Reykjanesbæjar þar sem Róbert Wessman og aðrir fjárfestar biðu með opinn faðminn. Þetta eru þau pólitísku umskipti sem hafa orðið á Íslandi, gerólíkar áherslur.

Til að svara hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um hvar ég ætli að taka peningana: Þessi áform og þessar áætlanir liggja á sjúkrastofnunum. Ég hef farið inn á Landspítalann. Ég hef skoðað áform stjórnenda þar um 2,6 milljarða kr. niðurskurð. Ég var á sjúkrahúsinu á Akureyri. Þar er krafan um 300 millj. kr., (Gripið fram í.) 370 millj. kr. í heilsugæslunni í Reykjavík. Ég hef kynnt mér þessi mál. Það er ekki ég sem er að útfæra þetta í einstökum atriðum. Heilbrigðiskerfið allt hefur fengið þetta verkefni og það nýtur stuðnings míns í því að gera þetta á félagslega réttlátan máta með því að jafna kjörin innan heilbrigðisþjónustunnar, (GÞÞ: Hvernig ætlarðu að ná þessum niðurskurði?) með því að standa vörð um þjónustuna, (GÞÞ: Svaraðu spurningunni.) með því að standa vörð um störfin. (Forseti hringir.) Í þessu er fólgin grundvallarbreyting á stefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur annars vegar og (Forseti hringir.) þeirrar ríkisstjórnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn réð heilbrigðismálunum (GÞÞ: Þú hefur engu svarað.) Hver talar? Sá sem talaði en framkvæmdi aldrei.