136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[13:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt og lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með síðari breytingum.

Með vísan til hinna efnahagslegu áfalla sem hér hafa dunið yfir á síðustu vikum og mánuðum og í samræmi við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar er með frumvarpi þessu þeim einstaklingum sem greitt hafa viðbótariðgjald í séreignarsjóði gert kleift að nota þá fjármuni tímabundið að ákveðnu marki, sem að öðrum kosti væru bundnir til 60 ára aldurs. Lagt er til að bætt verði við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, ákvæðum til bráðabirgða sem heimila útgreiðslu séreignarsparnaðar að hámarki 1 milljón kr. Auk þess eru með frumvarpinu lagðar til fáeinar minni háttar lagfæringar á þeim lögum.

Samkvæmt frumvarpinu geta allir sem eiga frjálsan séreignarsparnað leyst út allt að eina milljón kr. frá 1. mars 2009, nái frumvarpið lögfestingu fyrir þann tíma, til október 2010. Fjárhæðin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu opinberra gjalda, í níu mánuði frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Útgreiðslutími styttist þó hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 1 milljón kr. er að ræða. Þessi leið er fyrst og fremst hugsuð til að koma til móts við þá sem eiga í tímabundnum fjárhagserfiðleikum, t.d. vegna atvinnumissis eða af öðrum ástæðum. Ekki er það þó gert að skilyrði að viðkomandi eigi í skilgreindum tilteknum fjárhagserfiðleikum heldur eiga allir kost á þessari fyrirgreiðslu enda er um eign hvers og eins að ræða. Hins vegar má gera ráð fyrir því að þessi kostur höfði fyrst og fremst til þeirra sem eiga í einhverjum fjárhagsvandræðum, í ljósi þess hversu verðmætt sparnaðarform séreignarsparnaðurinn er fyrir flesta.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að skuldheimtumönnum sé óheimilt að krefjast þess að skuldarar taki út séreignarsparnað sinn. Í lífeyrissjóðalögunum er kveðið á um að séreignarsparnaður sé ekki aðfararhæfur. Markmiðið með þessu ákvæði er þannig að vernda þennan rétt sem menn hafa gegn aðför. Eftir að útgreiðsla séreignarsparnaðar er hafin getur rétthafi afturkallað beiðni um útgreiðslur hvenær sem er og skal þá hætt þeim útgreiðslum sem eftir eru til rétthafa og njóta þær þá áfram fyrrnefndrar verndar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessar útgreiðslur séreignarsparnaðar komi ekki til skerðingar á barnabótum, vaxtabótum eða atvinnuleysisbótum. Er þetta gert til að gæta samræmis í aðgerðum ríkisstjórnarinnar og til þess að aðgerðin sem slík nái markmiði sínu. Á þessu er tekið í þeim köflum frumvarpsins sem lúta að ákvæðum um breytingar á lögum nr. 90 frá 2003, um tekjuskatt, og breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, sem sagt í 5. og 6. gr. frumvarpsins.

Þá er í frumvarpinu lagt til að vörsluaðilum séreignarsparnaðar verði heimilt að fresta útgreiðslu séreignarsparnaðar sem frumvarp þetta fjallar um að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Skilyrði fyrir frestun er að hún sé almenn og einungis beitt ef sérstakar ástæður mæli með því og hagsmunir eigenda sparifjár séreignarsparnaðar krefjist. Jafnframt er skylt að frestun á útgreiðslum skuli þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og að hún sé háð samþykki þess. Reynt gæti t.d. á þetta ákvæði ef vörsluaðili stendur frammi fyrir svo miklum kröfum um útgreiðslur að ekki sé unnt að mæta þeim nema með sölu eigna sem tekið getur einhvern tíma.

Áætlað er að um 200 milljarðar kr. séu í frjálsum séreignarsparnaði í skilningi þessara laga í dag og að um 40% af því sé í fjárhæðum að 1 milljón kr., eða um 90 milljarðar kr. samtals. Erfitt er hins vegar að meta af einhverri nákvæmni hversu margir muni nýta sér framangreinda heimild til útgreiðslu á séreignarsparnaði verði frumvarpið að lögum.

Þess ber að geta að við vinnslu frumvarpsins var sú leið einnig skoðuð að opna á að rétthafar séreignarsparnaðar fengju að nýta t.d. helming þess sem þeir eiga umfram 1 millj. kr. í séreignarsparnaði upp að tilteknum mörkum til þess að greiða niður veðlán. Sem kunnugt er hafa húsnæðislán, sem og önnur lán, hækkað verulega á síðustu mánuðum vegna verðbólgu og gengisfalls krónunnar og með þessari leið væri því verið að veita einstaklingum ákveðna möguleika á að bregðast við þeirri þróun og lækka greiðslubyrði veðlána sinna. En horfið var frá því að svo stöddu þar sem talið var að slík opnun gæti til viðbótar því sem hér er fyrir mælt skapað raunverulega hættu á greiðsluvandræðum hjá sjóðunum. Flestir vörsluaðilar séreignarsparnaðar ávaxta lífeyrissparnað viðskiptavina sinna í safni verðbréfa, en slíkt safn er að sjálfsögðu ekki alltaf mögulegt að innleysa að fullu á skömmum tíma án tjóns fyrir þá sem sparnaðinn eiga enda er lífeyrissparnaður að meginstefnu til langtímafjárfesting. Því til viðbótar kemur að viðbúið er að vörsluaðilar eigi í söfnum sínum verðbréf sem hafa mun lægra markaðsvirði nú en ef þau yrðu innleyst síðar vegna þess sérstaka efnahagsástands sem ríkir og jafnvel að slík bréf gætu verið óseljanleg með öllu. Rétt er að undirstrika að óraunsæjar tillögur um útgreiðslu séreignarsparnaðar nú gæti leitt til mikils ójafnræðis milli rétthafa. Þannig yrðu auðseljanlegustu eignirnar, t.d. ríkisskuldabréf, seldar fyrst, en lakari eignir sætu eftir með tilheyrandi skaða fyrir þá rétthafa sem ekki kjósa að nýta sér hina tímabundnu heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar. Varð því að ráði að stíga ekki stærra skref en hér er lagt til að svo stöddu en að sjálfsögðu er rétt og skylt að skoða áfram hvort mögulegt verði að opna fyrir slíkar leiðir síðar og í ljósi þess hvernig gengur eftir að útgreiðslan er hafin á grundvelli ákvæða frumvarpsins.

Til að leggja áherslu á og undirstrika að með þessum aðgerðum er alls ekki ætlunin að raska í grundvallaratriðum fyrirkomulagi séreignarsparnaðar og þaðan af síður lífeyrissjóðakerfinu í heild sinni þá er lagt til í 5. gr. frumvarpsins, A-lið, að á tímabili þessarar aðgerðar sé heimilt að greiða hærri fjárhæð en við lýði er í dag skattfrjálst inn á séreignarsparnað eða 6% í stað þeirra 4% sem almennt gilda. Vonandi leiðir það til þess að þeir sem eru í aðstöðu til og það vilja nýti sér auknar inngreiðslur á þessu tímabili, sem að sjálfsögðu kemur kerfinu til góða og gerir því auðveldara að ráða við það álag sem útgreiðslurnar fela í sér.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, tel ég að frumvarpið skýri sig sjálft og um þjóðhagsleg áhrif þess og tekjuáhrif fyrir ríkissjóð vísa ég í fylgiskjal frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem fram kemur m.a. að þjóðhagsleg áhrif þessarar aðgerðar eru jákvæð og ætla má að þetta komi efnahagslífinu til góða og dragi úr þeirri miklu niðursveiflu sem við höfum nú lent í frekar en hitt. En þau áhrif snúast að sjálfsögðu við eðli málsins samkvæmt á síðari stigum og geta leitt til heldur hægari hagvaxtar síðar. Áhrifin á tekjur ríkis og sveitarfélaga eru augljóslega nokkur þar sem staðgreiðsla er dregin af útgreiðslunum eins og reglur kveða á um. En það fer að sjálfsögðu alfarið eftir því hve margir nýta sér þennan möguleika hver hin raunverulegu tekjuáhrif eða tekjuauki fyrir ríki og sveitarfélög verða.

Það er einnig rétt að geta þess að í frumvarpinu er komið nokkuð til móts við vörsluaðilana í 4. gr. þar sem lögð er til breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og vörsluaðilanum heimilað að hafa nokkurt svigrúm um skil á staðgreiðslunni eða allt að tveimur mánuðum umfram það sem almennar reglur kveða á um.

Einnig er rétt að árétta að aðrar ráðstafanir sem þessu tengjast eins og þær að tekjur sem menn fá með þessu skerði ekki atvinnuleysisbætur, barnabætur og vaxtabætur eru að sjálfsögðu bundnar við tímabil þessarar aðgerðar og í því skyni gerðar að hún nái markmiðum sínum og komi því fólki að fullu til góða sem kýs að fara þessa leið til að bæta aðstæður sínar á erfiðum tímum.

Að þessu sögðu frú forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.