136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[13:58]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki víkja að aðalatriði frumvarpsins í þessu andsvari sem er auðvitað heimildin til að taka út séreignarlífeyrissparnað. Heldur vil ég spyrjast fyrir um þær sérreglur sem lagðar eru til varðandi 5. og 6. gr. Að tekjurnar sem viðkomandi aflar sér með því að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn verði taldar fram og borgaður skattur af þeim, en leiði ekki til skerðingar á barnabótum, vaxtabótum eða atvinnuleysisbótum.

Þar með er þetta orðin sérregla hjá þeim sem í raun og veru afla sér tekna með því að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn og brýtur jafnræðið gagnvart hinum sem afla sér tekna með venjulegum aðferðum. Þá eru mönnum greiddar hærri barnabætur og hærri vaxtabætur ef hluti tekna er kominn til vegna útgreiðslu á séreignarlífeyrissparnaði en þeim sem hafa jafnháar tekjur en afla þeirra með vinnu.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann kannað hvort þessi framkvæmd frumvarpsins standist ákvæði jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?