136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:01]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður svo sem hver að meta hvort hann tekur út séreignarlífeyrissparnað sinn að gamni sínu eða ekki. Það eru engin skilyrði í frumvarpinu um af hvaða ástæðum hann er tekinn út. Það eru einfaldlega opnar heimildir og ótengd aðstaða viðkomandi þannig að ég held að rétt sé að undirstrika að frumvarpið sjálft reisir ekki skorður í þeim efnum. Mér sýnist að það búi til mismunun vegna þess að sá sem á séreignarlífeyrissparnað getur náð sér í tekjur, allt að 1 millj. kr., án þess að þær skerði barnabætur eða vaxtabætur. Eigi hann kost á því að vera á vinnumarkaði og afla sér 1 millj. kr. með auknu vinnuframlagi mun sú milljón skerða vaxtabætur og barnabætur. Það er augljóslega fólgin mismunun í þessu, virðulegur forseti, sem ég sé ekki að sé á neinum málefnalegum forsendum vegna þess að það eru engin skilyrði fyrir því að taka út séreignarlífeyrissparnaðinn, t.d. að menn séu í einhverjum fjárhagslegum vandræðum. Eða eru skilyrði í frumvarpinu fyrir að menn þurfi að sýna fram á slíka stöðu? Það hélt ég ekki. Ég hélt að það væri bara almenn opin heimild og viðkomandi gæti tekið út sparnaðinn til þeirrar ráðstöfunar sem hann kýs.

Ég vildi leggja áherslu á þetta sjónarmið, virðulegi forseti, og að það verði skoðað í meðförum þingsins og jafnvel að hæstv. fjármálaráðherra leggi þá fram þær álitsgerðir sem hann hefur undir höndum sem reifa þetta álitamál sem ég gat um. Hann sagði að allir lögfræðingar væru sammála um hans sjónarmið. Það hljóta þá að liggja fyrir einhverjir athuganir og greinargerðir sem hann getur lagt fram.