136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við þessu öllu er í raun og veru einfalt: Hér er reynt að fara ábyrga leið sem á að geta heppnast. Það er engum til góðs að leggja upp í aðgerð af þessu tagi ef ekki eru góðar líkur á að hún gangi upp og nái tilgangi sínum. Ef menn opnuðu á það með einhverjum þeim hætti sem væri óviðráðanlegur fyrir kerfið og aðgerðin mundi hrynja, allt færi í strand, kæmi upp sú staða að um mismunun gæti orðið að ræða milli þeirra sem fyrstir kæmu og fengju og hinna sem ekki fengju. Eftir sætu inni í sjóðunum þeir sem ekki ætluðu að taka fé sitt út og jafnræði væri brotið gagnvart þeim. Hér er því reynt að fara ábyrga leið, teygja sig eins langt og hægt er og metið er að viðráðanlegt sé og gangi upp. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta takist vel. Nú eru þær afar sérstæðu og erfiðu aðstæður á markaði að eignir sjóðanna eru mjög bundnar. Það er erfitt að losa þær og margar hverjar aðeins seljanlegar á mjög lágu verði eða jafnvel óseljanlegar með öllu.

Það er einnig óumflýjanlegt að horfa til þess hvaða áhrif aðgerðin hefur á ávöxtunarkröfur á markaði. Það verður líka að huga að þessari stærð í efnahagslegu tilliti í ljósi þess hver fjáröflunarþörf ríkisins og fleiri aðila er og verður á næstu mánuðum og missirum. Hún er umtalsverð. Við erum að tala um tugi og aftur tugi milljarða kr. sem er þó nokkur stærð á markaði með bréf. Þegar þetta allt saman er vegið og metið er niðurstaðan sú að þetta er ábyrgt upphaf aðgerða af þessu tagi. Því er haldið opnu að stíga frekari skref, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, en engu slegið föstu um það að svo stöddu.