136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í núning milli flokka í fyrri ríkisstjórn um þetta mál eða önnur, ég ber ekki ábyrgð á öðru en vinnunni að því eftir að ég tók yfir ábyrgð á henni. Ástæðan fyrir því að vinna við frumvarpið hefur tekið þessa daga sem liðnir eru frá stjórnarskiptum er einfaldlega sú að óumflýjanlegt var að skoða málið mjög vel og leggjast mjög rækilega yfir það hvað væri fært í þessum efnum og hvernig aðgerðin gæti verið úr garði gerð þannig að sæmilega tryggt væri að hún heppnaðist, og ég legg aftur áherslu á það.

Varðandi þjóðhagslegu áhrifin skiptir að sjálfsögðu máli hvort um er að ræða útgreiðslur án þess að það sé bundið við að borga niður lán þannig að fé geti farið í umferð, en ég vek athygli á að hér er um að ræða lágar fjárhæðir. Ég vek athygli á að þeir sem eiga þarna háar fjárhæðir inni og eru vel settir eru ekki líklegir til þess að fara að nýta sér þetta í stórum stíl, að því er ég tel. Þetta kemur til skattlagningar, ávöxtun á þessu fé er góð, þetta er góð sparnaðarleið, trygg og varin, þannig að þetta er gert í trausti þess að kerfið haldi áfram á sínu róli og ekki verði nein truflun á því, þannig að fólk sem t.d. er í vellaunuðum störfum, gagnvart því gilda þá þegar skerðingarmörk og tekjutengingar gagnvart hlutum eins og vaxta- og barnabótum þannig að þessar tekjur, væntanlega lagðar þá ofan á það, mundu ekki hafa áhrif o.s.frv.

Að aðgerðin komi ekki að umtalsverðu gagni — ég held að það hljóti nú að muna umtalsvert um 70 þús. kr. á mánuði í 9 mánuði hjá mörgum einstaklingum eða 140 þús. kr. á mánuði hjá mörgum hjónum á þessu tímabili, en það hefur auðvitað aldrei verið þannig lagt upp, að minnsta kosti ekki af minni hálfu, að þessi aðgerð ein og sér ætti að leysa allan vanda hvorki þessa hóps né annarra þaðan af síður auðvitað. Hún er liður í viðamiklum og fjölþættum aðgerðum sem verið er að reyna að grípa til um þessar (Forseti hringir.) mundir til að aðstoða heimilin.