136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[15:00]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta að þær tölur sem hv. þingmaður nefndi — að fólk gæti fengið allt að 140 þús. kr. út á mánuði — eru þá fyrir skatta og af þeirri fjárhæð á að greiða skatta. (Gripið fram í.) Já, milljón er tekin út sem deilist á níu mánuði. Það eru rétt rúmar 100 þús. kr. á mánuði sem má taka út og af þeirri fjárhæð á að greiða skatta, um 37%, og þá sýnist mér að eftir gætu staðið 70 þús. (Gripið fram í: Já.) Já, 70 þús. kr., þá er það skýrt. (SVÓ: Það var það sem ég sagði.) Gott og vel þá bara misskildi ég hv. þingmann og biðst velvirðingar á því.

Staðreyndir eru þessar: Þetta þýðir 25–30 milljarðar sem fólk getur tekið út á næstu níu mánuðum upp í skuldir sem eru 2.000 milljarðar. Þetta er 1%. Hvað ætlar hv. þingmaður að segja við kjósendur sína á næstu vikum. Er þetta „Ráðið“ með stórum staf og greini? Þarf ekkert annað að gera? Er þetta svar ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda fólksins? Ég segi nei, þetta er plástur á sárið. Það sem á að gera er að taka á vandanum. Ríkisstjórnin á að koma með tillögur til þess telji hún að það sem komið er dugi ekki til. Það er það sem ég er fyrst og fremst að gagnrýna, ríkisstjórnin er með sjónhverfingar. Hún segir: Þetta er málið til að leysa vanda ykkar og við þurfum að hraða þessu í gegnum þingið en það er það ekki. Það er bara plástur á sárið, virðulegi forseti, og það er kannski kjarni málsins.