136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[15:02]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er þetta ekki „Ráðið“ með stórum staf og greini eins og þingmaðurinn orðaði það. Þetta er hins vegar eitt af þeim ráðum sem ríkisstjórnin grípur til til að koma til móts við heimilin og fjölskyldurnar í landinu. Það hafa verið kynntar hugmyndir um greiðsluaðlögun. Það eru í vinnslu núna hugmyndir sem lúta að verðtryggingu og myntkörfulánum og ég stend alls ekki hér í dag í þessum ræðustól, eins og hv. þingmaður gaf í skyn, og reyni að telja fólki trú um að þetta sé „Ráðið“. Það er það auðvitað alls ekki enda er hér um tiltölulega lágar upphæðir að ræða. Þetta getur hins vegar gagnast fólki mjög vel og mér finnst satt best að segja gert ansi lítið úr því að 70 þús. kr. á mánuði fyrir manneskju sem er atvinnulaus, 140 þús. kr. fyrir fjölskyldu, þar sem kannski annar aðilinn er atvinnulaus og hinn hefur lent í því að laun hafa verið lækkuð og starfshlutfall skert — fólk getur svo sannarlega munað um þessa fjármuni og það á alls ekki að gera lítið úr því, hæstv. forseti.

Það má líka hafa í huga að þessir fjármunir geta nýst fólki, t.d. til að greiða niður yfirdráttarskuldir og VISA-skuldir sem bankar segja mér að séu vaxandi í samfélagi okkar. Vonandi sjáum við það á næstu mánuðum að þessu ástandi fari að linna þannig að fólk geti notað þessa peninga til að fleyta sér núna yfir erfiðasta hjallann og sé það atvinnulaust sjái það fram á það að geta hugsanlega fengið atvinnu á haustmánuðum. Auðvitað er þetta ekki „Ráðið“, hv. þingmaður, en þetta er eitt skref af mörgum í rétta átt til að létta byrðum af heimilunum og fjölskyldunum í landinu.