136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[15:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, þetta frumvarp leysir svo sannarlega ekki vandann. Ef hér er einhver í salnum sem kann lausnina með stórum staf þá bið ég hann um að gefa sig fram. Kannski er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson eini maðurinn á Íslandi sem veit hvernig á að leysa vandann. En það er undarlegt að heyra þennan málflutning hér, hv. þingmaður hefur allt á hornum sér gagnvart þessari aðgerð sem er liður í viðamiklum aðgerðum. Hvar hefur hv. þingmaður verið undanfarna daga? Hér hefur komið hvert frumvarpið inn á fætur öðru frá þessari starfsömu ríkisstjórn og önnur eru á leiðinni. Næsta frumvarp á dagskrá þessa fundar er mikilvæg réttarbót fyrir fólk, breytingar á lögum um nauðungarsölu og gjaldþrotaskipti sem hæstv. dómsmálaráðherra mun mæla fyrir og önnur eru á leiðinni. Þetta er hluti af stórum aðgerðapakka sem þessi ríkisstjórn er mynduð um og ætlar að gera sitt besta á 80 dögum til að koma hér fram.

Ég hafna því algerlega málflutningi af því tagi að þetta sé einhver sýndarmennska eða eitthvað til að kaupa sér eitthvert skjól fyrir kosningar. Eða hvað vill hv. þingmaður gera? Ekki neitt fyrir kosningar? Er hann að mæla með því? Það hefur enginn haldið því fram að þetta frumvarp leysti hinn stóra efnahags- og skuldavanda íslensks þjóðarbús. Það dettur engum manni í hug. Hann er risavaxinn, snýr að heimilunum, snýr að atvinnulífinu, snýr að þjóðarbúinu í heild út á við þannig að þetta er málflutningur algerlega út úr korti, að koma hér með gagnrýni á þarft og gott innlegg í það mál að auðvelda heimilum að komast af við núverandi þrengingar.

Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að þetta dragi úr sparnaði. Í frumvarpinu er boðið upp á aukinn sparnað á móti. Það er opnað fyrir það að menn auki inngreiðslur, skattfrjálsar inngreiðslur inn í kerfið einmitt til að undirstrika að það er ekki ætlun okkar að kollvarpa þessu kerfi eða draga úr hvatningu til sparnaðar. Það er að sjálfsögðu áfram mikilvægt að fólki reyni að borga niður skuldir og laga til í sínum fjárhag og þetta er liður í því eins og hv. þingmaður, sem hér talaði áðan, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, benti á. Að sjálfsögðu munar um það fyrir einstakling að fá 70 þús. kr. á mánuði til að ná niður yfirdrætti eða VISA-skuldum eða 140 þús. kr. fyrir hjón sem bæði eiga séreignarsparnað.