136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[15:11]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg gilt sjónarmið að segja sem svo, eins og hæstv. fjármálaráðherra gerir, að fólkið eigi þessa peninga og það ráði því sjálft hvernig það ver honum og taki ákvörðun um það hvernig peningarnir gagnist því best. Auðvitað er það gott og gilt sjónarmið. En ef við tökum það sjónarmið þá erum við búin að kollvarpa séreignarlífeyrissparnaðarkerfinu sem slíku. Til hvers að vera að fá fólk til að leggja peninga inn á séreignarlífeyrissparnað ef það getur sjálft ráðið því hvernig það ver peningunum sem best í upphafi? Til hvers er verið að búa til slíkt kerfi með þeim takmörkum sem það er að hafa langtímainnstæður og fjárfestingu og fólkið er hvatt til þess með boði um að þurfa ekki að borga skatta af þessum tekjum fyrr en þeir eru teknir út o.s.frv.?

Ef við eigum bara að fallast á þau sjónarmið að fólkið sjálft ráðstafi sínu fé þarf ekki svona kerfi. Það er kannski það sem mér finnst það versta við þetta mál að það grefur undan séreignarlífeyrissparnaðarkerfinu og hugsanlega lífeyrissparnaðarkerfinu sjálfu þegar verið er að fikta í þessu máli með tiltölulega óljósan ávinning einstaklinga í huga og sérstaklega með það rökstudda markmið að auka eftirspurn í hagkerfinu. Mér finnst það ekki vera markmið sem taka eigi gott og gilt til að bora göt á séreignarlífeyrissparnaðarkerfið. Ég viðurkenni það, virðulegi forseti, að ég er ekki sammála því. Mér finnst að af því verði meiri skaði en ávinningur.