136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:35]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér er verið að ræða bandorm sem grípur inn í þrenn lög til að koma til móts við heimilin í landinu. Að því leyti er þetta jákvætt mál en ég tel að við þurfum eigi að síður að skoða það vel í allsherjarnefnd.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að frumvarpið eigi að bæta stöðu skuldara við gjaldþrotaskipti, að fresta eigi nauðungarsölu um sex mánuði svo að skuldarar fái tækifæri til að endurskipuleggja fjármál sín, og það er allt jákvætt. Frumvarpið er því flutt til að koma til móts við heimilin í landinu og taka á þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir í augnablikinu.

Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram að lengja á aðfararfrest úr 15 dögum í 40 til þess að auka svigrúm skuldara sem lenda í greiðsluerfiðleikum þannig að þeir geti þá leitað úrræða og endurskipulagt fjármál sín og þannig hugsanlega komist hjá því að aðför og fjárnám sé gert í eignum þeirra, og þá hugsanlega líka komist hjá nauðungarsölu og gjaldþrotaskiptameðferð. Lagt er til að lenging aðfararfrests verði tímabundin vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í samfélaginu. Ef ekki verður gripið til úrræða í ætt við þetta, og reyndar fleiri úrræða sem stjórnvöld og þingið hafa á prjónunum, er meiri hætta á greiðsluerfiðleikum.

Lagt er til að unnt verði að fresta, fram yfir 31. ágúst 2009, nauðungarsölu á fasteign eða ráðstöfun hennar á frjálsum markaði ef gerðarþoli óskar eftir því. Hér er um tímabundna heimild að ræða vegna efnahagsástandsins og skuldarinn fær þannig meiri tíma til þess að koma nýrri skipan á fjármál sín. Ég vil sérstaklega koma því á framfæri varðandi þetta, og það höfum við verið að skoða svolítið í allsherjarnefnd, að ekki er hlaupið að því að selja fasteignir. Fasteignamarkaðurinn er algjörlega frosinn. Það fara nánast engar sölur fram. Þær sölur sem fara fram eru hálfgerðar gervisölur af því að þar er bara um makaskipti að ræða á húsnæði sem er svipað — ef tvær fjölskyldur eru hvor í sínu húsnæðinu er bara skipt á húsnæði sem er á svipuðu verði. Varla er því um eðlilega sölu að ræða. Svo hreyfast líka, skilst mér, minni íbúðir í fjölbýli og nokkrar meðalstórar. Annað er bara algjörlega frosið fast. Almennt sérbýli, ekki fjölbýli, bara selst ekki neitt. Þannig að það er erfitt að fara í nauðungarsölu á fasteign og ráðstafa fasteignum á frjálsum markaði þegar markaðurinn er frosinn.

Það kemur líka fram hér að dómari skuli leiðbeina skuldara um þau úrræði sem felast í greiðsluaðlögun og nauðasamningum til að tryggja að skuldarar geti nýtt sér þessi úrræði, að þau fari ekki fram hjá þeim. Lögð er til stytting á fyrningarfresti krafna, að hann verði tvö ár án tillits til þess um hvers konar kröfu er að ræða, sbr. 5. gr. frumvarpsins, en þeir frestir eru mjög misjafnir í dag. Einnig er lagt til að skiptastjóri þrotabús geti, ef veðhafar búsins samþykkja, heimilað skuldara að búa áfram í íbúðarhúsnæði í eigu búsins í allt að 12 mánuði, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Fólk fær þá að vera í eitt ár í húsum sínum — sem eru þá ekki lengur þeirra hús, en í húsi sem það hefur búið í — allt að 12 mánuði ef veðhafar búsins samþykkja.

Þegar við höfum verið að ræða greiðsluaðlögunarfrumvarpið í allsherjarnefnd hefur komið fram að bankarnir vilja að sjálfsögðu helst ekki lenda með mikið af eignum undir sínum yfirráðum. Þeir hafa ekki getu eða þekkingu til þess að reka íbúðarhúsnæði í landinu. Bankarnir hafa því lítinn áhuga á að sitja uppi með mikið af íbúðarhúsnæði almennt séð. Þetta leiðir hugann að því sem forsetafrú vor, Dorrit Moussaieff, sagði að það væru svo margar íbúðir hér í landinu að hún tryði því ekki að fólki yrði hent úr þeim. Það er alla vega ljóst að bankarnir hafa lítinn áhuga á að sitja uppi með mikið af íbúðum af því að það er ekki þeirra sérgrein að reka íbúðir.

Mig langaði að vekja athygli á einu atriði í lokin, virðulegi forseti, sem kemur fram í umsögninni frá fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Í lok greinargerðar þeirra eru ákveðin varnaðarorð höfð uppi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er kveðið á um að ef nauðungarsölu er frestað skulu kröfur, sem trygging er fyrir í viðkomandi eign og tilheyra ríkinu eða stofnun eða fjármálafyrirtæki í eigu þess, ekki bera dráttarvexti til 1. september 2009. Ekki verður með neinni nákvæmni lagt mat á hvaða áhrif þetta ákvæði hefur á innheimtukostnað. Á það skal þó bent að skattakröfur bera ekki aðra vexti en dráttarvexti og með frumvarpinu er verið að gefa þá eftir að hluta til ákveðins hóps en ekki annarra. Vakin er athygli á því að þetta ákvæði frumvarpsins getur falið í sér flókna framkvæmd og það virðist mismuna skuldurum eftir því hversu langt mál þeirra eru komin í innheimtu.“

Þetta er væntanlega atriði sem við í allsherjarnefnd verðum að liggja svolítið yfir, þarna er alla vega verið að koma því sérstaklega á framfæri að þetta ákvæði virðist mismuna skuldurum eftir því hve langt mál þeirra eru komin í innheimtu.

Virðulegi forseti. Almennt er jákvætt að reyna að koma til móts við skuldara og heimilin í landinu í því árferði sem nú ríkir. Það er ekki gott fyrir neinn, hvorki þá sem skulda né þá sem eiga innstæður hjá þeim sem skulda, ef mjög illa fer fyrir stórum hópi fólks hér í landinu. Enginn græðir á því þannig að það er um að gera að koma til móts við fólk. En þó vil ég segja það, og það verða kannski mín varnaðarorð hér, að það má heldur ekki koma málum þannig fyrir að þau séu með einhverjum hætti óeðlileg, þ.e. að þau hvetji fólk til að borga ekki. Þarna þarf að finna milliveginn og hjálpa þeim sem geta ekki staðið í skilum. En þetta má ekki verða til þess að frumvarpið, eða þau lög sem Alþingi setur, hvetji fólk til þess að greiða ekki skuldir sínar. Það má alls ekki verða.

Framsóknarmenn eru jákvæðir gagnvart þeim málum sem almennt koma til móts við heimilin í landinu en ég áskil mér allan rétt til þess að skoða málið betur í nefnd.