136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:42]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi mjög eindregið. Hér er verið að bregðast við efnahagshruni sem 18 ára nýfrjálshyggjustefna Sjálfstæðisflokksins hefur leitt yfir þjóðina þar sem frelsið var einkavætt en ekki ábyrgðin. Við búum, frú forseti, við þá stöðu í dag í efnahagsmálum — heimilin eru í þeirri stöðu, atvinnulífið er í þeirri stöðu — að við verðum að víkja af braut hefðbundinnar hugsunar í innheimtu, nauðungarsölum og öllu sem því fylgir. Við erum í nýjum raunveruleika, algjörlega nýjum raunveruleika, og það er verið að bregðast við því.

Eftir eitt til þrjú ár getum við vonandi snúið aftur inn á þá braut lagareglna sem við erum að fást við í því neyðarástandi sem nú er. Menn verða að skilja hlutina, menn verða að vera tengdir þeim raunveruleika sem blasir við heimilunum — 15.000 manns atvinnulausir, heimilunum blæðir. Við getum ekki hugsað hlutina eftir hefðbundnum lögfræðilegum leiðum og öðru slíku, leiðum sem ég lærði í lagadeild og víðar. Við verðum að fara inn á óvenjulegar brautir og ég get hugsað mér að gera allt í þeim efnum nema að fara á skjön við stjórnarskrána.

Ég hefði kosið að hv. þm. Jón Magnússon, nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði veitt jákvæðum straumum reynslu sinnar yfir þingsalinn í stað þess að ausa neikvæðni úr einhverjum skotgröfum en styðja þó frumvarpið. Auðvitað á jafnreynslumikill þingmaður og hv. þm. Jón Magnússon að rétta fram hjálparhönd og vera jákvæður gagnvart þessu vegna þess að gríðarlega þýðingarmiklar réttarbætur eru í húfi. Við erum að tala um frumvarp sem skiptir fólkið í landinu verulegu máli. Ekki er verið að rella um einhver aukaatriði eða hluti sem skipta engu máli eins og við þingmenn höfum gert allt of mikið af undanfarna daga. Hér er verið að ræða hluti sem skipta verulegu máli.

Það sem fyrst og fremst er verið að gera er að gefa fólki aukið ráðrúm. Það er verið að gefa því kost á lengri fresti. Það er verið að gefa því kost á sérstökum leiðbeiningum. Það er verið að gefa því kost á að fresta uppboðum fram til 31. ágúst. Hver er tilgangurinn? Ekki bara að hjálpa heimilum heldur líka til að gefa ríkisstjórninni ráðrúm til að koma fram með varanlegri lausnir, til þess er leikurinn gerður. Það er líka verið að gefa fólki ráðrúm til þess að sækja um greiðslustöðvun, fara í nauðasamninga og leita annarra þeirra úrræða sem tæk eru.

Hér er verið að gera það með lagafyrirmælum. Það er líka hægt að gera það með fjölmörgum stjórnvaldsaðgerðum og ég beini því sérstaklega til ríkisstjórnarinnar og ráðherra hennar að huga að slíkum aðgerðum. Það hefur verið gert með ýmsum hætti. Því hefur verið beint til bankanna að lina innheimtur og þeir hafa, að mér skilst, í meginatriðum farið eftir því. En ótrúlega mörgum stjórnvaldsaðgerðum er hægt að beita í því tilviki þar sem ríkið er skuldareigandi. Fram kom gagnrýni frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, þar sem vakin er athygli á því að skattakröfur beri dráttarvexti, og vil ég því nefna að ég hygg að fjármálaráðherra geti gefið ívilnandi stjórnvaldsfyrirmæli um aðra vexti án lagaheimildar. Þar er um ívilnandi stjórnarathöfn að ræða. Auðvitað þarf allsherjarnefnd að ræða þetta og huga að þessum þætti en þarna hygg ég að einföld stjórnvaldsfyrirmæli mundu duga til.

Ég fagna því sérstaklega að tekin sé upp jákvæð leiðbeiningarskylda, virk leiðbeiningarskylda. Ég fagna því sérstaklega að einstaklingur, sem lendir í fjárhagskröggum, sem hann ber ekki ábyrgð á, heldur má rekja til efnahagshrunsins og atvinnuleysisins, geti búið í íbúð sinni 12 mánuði eftir uppboð gegn því að greiða þann kostnað sem af þeirri búsetu hlýst. Þetta eru afar þarfar breytingar — ég ítreka það, frú forseti — og ég minni aftur á og hvet ríkisstjórnina og hæstv. dómsmálaráðherra til að huga að öðrum breytingum, fara nánast í lúsarleit að öllum úrræðum sem kunna að nýtast almenningi í þeirri erfiðu stöðu sem þjóðin er í.

Ég ætla að hrósa ríkisstjórninni fyrir það að hafa á jafnstuttum starfstíma komið því í verk sem komið hefur verið í verk með þeim lagafrumvörpum sem hafa séð dagsins ljós. Það er greinilegt að unnið hefur verið hratt, örugglega og fagmannlega í þeim efnum. Fyrir það á ríkisstjórnin að fá þakkir þingmanna og fær það hér með frá mér.

Ég minni enn og aftur á að ríkið er í mörgum tilvikum skuldareigandi og getur með fyrirmælum til innheimtumanna sinna hvatt þá til að haga innheimtuaðgerðum með sem allra mildilegustum hætti. Ég beini því líka til lífeyrissjóða landsins, sparisjóða og annarra, að taka upp mildar innheimtureglur, að milda allan innheimtupakkann í þeim anda sem hér er og í þeim anda sem felst í frumvarpi um greiðsluaðlögun. Lífeyrissjóðirnir ættu að taka það upp hjá sjálfum sér því að þeir eru jú eign sjóðfélaga og sjóðfélagarnir eru launamenn í þessu landi. Fjöldinn allur af sjóðfélögum lífeyrissjóða stendur mjög illa og lífeyrissjóðirnir hafa ekkert gagn af því að standa uppi með auðar íbúðir. Ekki verða þær greiddar út í lífeyri til ellilífeyrisþega. Menn skyldu skoða þetta vandlega og ég treysti lífeyrissjóðum og öðrum skuldareigendum til þess að gefa út fyrirmæli um mildandi aðgerðir þegar í stað og íhuga það. Ég veit til þess að stjórn VR hefur beint slíkum tilmælum til stjórnar Lífeyrissjóðs VR og fleiri lífeyrissjóða sem félagsmenn þess stéttarfélags eiga aðild að sem sjóðfélagar.