136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:53]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er tilbúinn til þess að beita mér varðandi réttargjöldin. Ég beindi þessu til hæstv. dómsmálaráðherra vegna þess að eins og hv. þm. Atli Gíslason veit eru líkurnar á því að mál komist í gegnum þing þegar sá tími er kominn sem hér ræðir um fólgnar í því að borið sé fram stjórnarfrumvarp og keyrt fram með þeim hætti sem ríkisstjórninni er lagið miðað við þær reglur sem við búum við til þess að hlutirnir nái fram að ganga. Þess vegna kom ég þessum tilmælum á framfæri.

Þetta væri ein jákvæðasta úrbót sem mundi snerta alla skuldara sem lentu í aðför eða nauðungaruppboði. Eins og hv. þm. Atli Gíslason veit er þarna um að ræða verulegar fjárhæðir sem lenda alltaf á skuldurunum. Miðað við það neyðarástand sem hér er um að ræða finnst mér þetta vera aðgerð sem mundi nýtast öllum mjög vel.

Í annan stað tel ég það faglegri og betri leið og til hagsbóta fyrir skuldarana að hafa það þannig að það sé lengt í frestum varðandi nauðungaruppboðin í stað þess að búa til þá dagsetningu eina sem hér er um að ræða. Ég er ekkert að velta fyrir mér Perry Mason hugmyndafræði hv. þm. Atla Gíslasonar um það að fram fari einhver úttekt um jákvæðni eða neikvæðni. Ég hygg að við getum báðir gert okkur grein fyrir því, við höfum þá menntun að við eigum að gera okkur grein fyrir því, hvenær talað er með jákvæðum hætti og hvenær neikvæðum. Þegar hv. þm. Atli Gíslason heldur því fram að ég hafi fjallað með neikvæðum hætti um þau úrræði sem hér er um að ræða er hann einfaldlega að tala gegn betri vitund og mér gremst það að maður sem ég ber faglega virðingu fyrir skuli gera það.