136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:55]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir afar leitt að hafa komið hv. þm. Jóni Magnússyni í tilfinningalegt uppnám með þessu. (JM: Þú gerðir það ekki.) Allt sem við getum gert fyrir heimili og atvinnulíf í landinu eigum við að gera svo fremi að við förum ekki á svig við stjórnarskrá, allt, líka stjórnvaldsfyrirmæli þar að lútandi, innheimtufyrirmæli líka, lina allan innheimtukostnað eins og við getum og koma því á framfæri, hvað sem er sem við getum gert. Forðumst að fara finnsku leiðina, þá sem reyndist finnsku þjóðinni afar dýr. Hún fólst í því að bjarga bönkunum fyrst en ekki fólki og atvinnulífi og það hafði það í för með sér að kynslóð Finna í dag, frá 16–17 ára upp í þrítugt, er í miklum vandræðum. Það er mikið um félagsleg vandamál hjá heilli kynslóð ungra Finna sem ólst upp á krepputímunum í Finnlandi. Ég ítreka að við eigum að bjarga heimilunum og atvinnulífinu. Það er frumskyldan að fólk hafi þak yfir höfuðið, fæði, húsnæði, hita og rafmagn. Förum í það, og förum í það af jákvæðni, (JM: Við erum sammála um það.) hv. þm. Jón Magnússon.