136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[16:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls og komið með gagnlegar ábendingar. Ég ætla aðeins að fara yfir nokkur atriði.

Hv. þm. Jón Magnússon beindi til mín tveimur spurningum og velti fyrir sér tveimur atriðum sérstaklega. Hann velti fyrir sér 1. gr. frumvarpsins og að lenging frestsins tæki til afmarkaðs hluta krafna. Ég tel að meginþýðing þessa ákvæðis felist í lengingu aðfararfrests hvað varðar það sem er í athugasemdum um einstaka greinar, þ.e. í 3. tölulið, skuldabréf fyrir ákveðinni peningaupphæð, og síðan kröfur um skatta og önnur samsvarandi gjöld. Ef allsherjarnefnd telur að fleiri kröfur geti komið þarna undir er gott og gilt að það verði skoðað.

Þingmaðurinn nefndi einnig að þetta gæti orðið til þess að rugla fresti í aðfararbeiðnum og, eins og ég skildi hann, að það gæti komið kerfinu í ákveðið uppnám. Ég bendi á í því sambandi að ákvæðið er til bráðabirgða og þetta er tímabundið úrræði sem á að gilda í þessum sérstöku aðstæðum. Það gefur þeim sem lenda nú í fyrsta sinn í vanskilum ráðrúm eða tækifæri til þess að endurskipuleggja fjármál sín. Ég tel að þarna sé ekki gengið lengra en þörf krefur. Vextir halda t.d. áfram að falla á meðan þessi frestur líður. Ég held því að þarna sé tekið réttmætt tillit til beggja aðila, skuldara og kröfuhafa, sem ég held að sé nauðsynlegt við aðstæður sem þessar.

Þingmaðurinn Jón Magnússon velti einnig fyrir sér aðferðinni sem notuð er til að setja sérstaka dagsetningu, að fresta nauðungarsölum fram til 31. ágúst. Hann velti fyrir sér hvort aðrar aðferðir gengju til þess að ná betur markmiðinu sem að er stefnt. Ég tel að það verði þá rætt frekar í allsherjarnefnd. Hvað varðar áhyggjur hans af því að verð fasteigna geti rýrnað á þessum tíma bendi ég á að þetta er ekki fortakslaust ákvæði um frestun nauðungarsalna. Það verður að vera að ósk gerðarþola. Það er líka hagur hans að sem best verð fáist fyrir fasteignina.

Síðan var nefnt að fella niður réttargjöld. Ég tel að það sé gott og gilt sem hægt er að skoða í nefndinni og ætla ekkert að koma inn á það frekar.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um að það séu erfiðar aðstæður á húsnæðismarkaði og það er vitaskuld ein af ástæðum þess að þetta ákvæði er sett fram.

Varðandi varnaðarorð fjármálaráðuneytis í kostnaðarumsögn um að hugsanlega sé skuldurum mismunað má skilja þessi orð sem svo að dráttarvextir á skattkröfum falli niður þessa sex mánuði hjá þeim sem eru í hættu að missa húsnæði sitt en ekki hjá þeim sem eru svo lánsamir að vera ekki í þeim vanda staddir. Þarna er náttúrlega mikill aðstöðumunur á högum fólks en ég geri ráð fyrir því að allsherjarnefnd skoði það einnig. Þó að ég leyfi mér að efast um að mikil ástæða sé fyrir þessum ótta tel ég sjálfsagt að það verði skoðað út í hörgul.

Hvað varðar orð hv. þm. Atla Gíslasonar um að ríkið sem skuldareigandi verði að huga að innheimtuaðferðum sínum heyrir það reyndar undir málefnasvið fjármálaráðuneytis. En ég er sammála því að allir kröfuhafar verði að huga að innheimtuaðferðum sínum þannig að þeim aðgerðum gegn skuldara sem hér er verið að tala um verði beitt í eins litlum mæli og hægt er. Ég held að það hljóti að vera öllum í hag.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefndi ýmis gagnleg atriði sem ég tel að nefndin þurfi að skoða og muni skoða, ef ég þekki þetta rétt, þær leiðir sem ná því markmiði sem að er stefnt. Ég tel að það megi ræða það. Eru einhverjar aðrar heppilegri leiðir til? Þingnefndin verður að vera óhrædd við að skoða það. Hvað varðar hætturnar sem þessu fylgja, þ.e. að fullnusturéttarfarið sé hugsanlega lagt í hættu, vil ég segja að ákvæði frumvarpsins eru mörg hver tímabundin og taka mið af þeim sérstöku aðstæðum sem nú eru og kalla á sérstakar aðgerðir. En ég tel sjálfsagt að skoða allar auka- og hliðarverkanir af þessum ákvæðum.